Leigumorðingi missir minnið

Hinn grjótharði kvikmyndaleikari Liam Neeson hefur verið ráðinn til að leika aðalhlutverkið í glæpatryllinum Memory, í leikstjórn Martin Campbell.

Tökur myndarinnar eiga að hefjast í Bandaríkjunum í ágúst á þessu ári, en í myndinni mun Neeson leika leigumorðingja sem glímir við minnistap. Hann leggur á flótta eftir að hann neitar að klára verkefni fyrir glæpasamtök.

Ekki er búið að ráða fleiri leikara í verkefnið, en leit að leikurum stendur yfir, samkvæmt frétt í Screen Daily.

Dario Scardapane (The Bridge, The Punisher) skrifaði handrit myndarinnar, og byggði það á hollensku kvikmyndini The Memory Of A Killer.

Liam Neeson, sem var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína í Schindler’s List frá 1993, sést næst í kvikmyndunum Honest Thief, sem fjallar um bankaræningja sem reynir að gefa sig fram við lögreglu og snúa af glæpabrautinni, og The Marksman, sem segir frá búgarðseiganda í Arizona sem kemur til varnar dreng á flótta undan eiturlyfjahring frá Mexíkó.