Lindsay Lohan ekki lengur klámstjarna

Lengi vel stóð til að vandræðagemlingurinn Lindsay Lohan myndi leika í sannsögulegri mynd um klámstjörnuna heimsfrægu Lindu Lovelace. Framleiðendur myndarinnar, sem mun bera nafnið Inferno: A Linda Lovelace Story, hafa loks ákveðið að losa sig við Lohan. Þetta staðfesti leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar, Matthew Wilder. Ástæðan mun vera sú að eins og ástandið er á Lohan þessa dagana er einfaldlega ekki hægt að tryggja hana.

En Inferno var ekki lengi að finna sér staðgengil, því leikkonan Malin Akerman mun fara með hlutverkið í stað Lohan. Akerman, sem lék meðal annars í The Heartbreak Kid og Watchmen, sló greinilega í gegn hjá framleiðendum Inferno og var hún ráðin sama dag og Lohan var rekin.

Eins og áður segir mun Inferno fjalla um ævi klámstjörnunnar Lindu Lovelace, sem lék í einni frægustu klámmynd allra tíma, Deep Throat. Myndin var sögð hafa gert klám vinsælt hjá almenningi og var varla mannsbarn sem þekkti ekki nafnið Lovelace. En fáir vissu að líf Lovelace var ekki jafn frábært og það leit út fyrir að vera. Maður hennar, Chuck Traynor, misnotaði Lindu bæði andlega og líkamlega í fleiri ár, en myndin mun ekki skafa af því sem gerðist á þessum tíma í lífi Lindu.

– Bjarki Dagur