Litla ofurhetjan vinsælust í USA

Disney/Marvel ofurhetjumyndin Ant-Man er vinsælasta mynd helgarinnar í Bandaríkjunum, með tekjur upp á 56,4 milljónir Bandaríkjadala.

ant-man-2

Þessi niðurstaða er samkvæmt Deadline vefnum, í takt við spár. Í samanburði við fyrri ofurhetjumyndir þá er myndin með lakari árangur á frumsýningarhelgi en Thor, sem þénaði 65,7 milljónir dala, og Captain America: The First Avenger, með 65,1 milljónir dala í tekjur.

Ant-man fjallar um ofurhetjuna Ant-Man sem hefur þann hæfileika að geta minnkað sig, en fær jafnframt ofurkrafta. Ant-Man er í raun ein af Avengers-hetjunum og fylgir að stórum hluta fyrstu sögunni um Ant-Man og segir frá því þegar uppfinningamaðurinn Hank Pym velur þjófinn Scott Lang til að klæðast búningi hans og sinna mikilvægu verkefni ..

Ant-Man er tekjuhæsta leikna ( live action ) kvikmynd Paul Rudd, sem leikur titilhlutverkið, á frumsýningarhelgi frá upphafi, en áður var Knocked Up vinsælasta mynd hans á frumsýningarhelgi.

Minions voru áfram vinsælir í Bandaríkjunum með 50,2 milljónir dala í tekjur í öðru sæti bandaríska aðsóknarlistans. Í þriðja sætinu kom svo gamanmyndin Trainwreck, nýjasta mynd leikstjórans Judd Apatow, en tekjur myndarinnar þessa frumsýningarhelgi duga til þess að gera hana að annarri vinsælustu mynd leikstjórans á frumsýningarhelgi frá upphafi.

Handrit myndarinnar skrifaði Amy Schumer, sem jafnframt leikur aðalhlutverkið.

Hér eru efstu 12 myndirnar í Bandaríkjunum:

1). Ant-Man

2). Minions

3). Trainwreck

4). Inside Out

5). Jurassic World

6). Terminator: Genisys

7). Magic Mike XXL

8). The Gallows

9). Ted 2

10). Mr. Holmes

11).Bajrangi Bhaijaan

12) Self/Less