Löngu týnd Orson Welles mynd fannst á Ítalíu

too_much_johnson_3Orson Welles myndin Too Much Johnson, frá árinu 1938, er fundin, en hún hefur verið týnd í áratugi. Hún fannst í ítölsku vöruhúsi og hefur verið lagfærð.

Myndin verður frumsýnd 9. október í Pordenone, á Le Giornate del Cinema Muto, ítalskri kvikmyndahátíð fyrir þöglar kvikmyndir. Myndin verður svo frumsýnd í Bandaríkjunum þann 16. október í George Eastman House í Rochester í New York.

Upphaflega átti að sýna myndina sem hluta af sviðsuppfærslu Welles á leikriti William Gilette frá árinu 1894, en Mercury leikhúsið ætlaði að sýna myndina sem einskonar formála að hverjum hinna þriggja þátta leikritsins.

Leikritið, sem er gamanleikrit, og var með Joseph Cotten í aðalhlutverkinu, átti að flytja með tónlist og hljóðbrellum, en var aldrei klárað.

Ásamt Cotten koma Mercury leikararnir Eustace Wyatt, Edgar Barrier, Ruth Ford, Arlene Francis, Mary Wickes, Welles og eiginkona hans Virginia Nicholson fram í myndinni.

Leikritið var frumsýnt án myndarinnar þann 16. ágúst 1938 og floppaði.

Eina eintak kvikmyndarinnar sem vitað var um til þessa var talið hafa orðið eldi að bráð þegar heimili Welles í Madrid brann árið 1970.

 

Stikk: