Maíblað Mynda mánaðarins komið út


Maíblað Mynda mánaðarins er komið út á leigur, í bíó og á alla helstu sölustaði kvikmynda, en í þessu 80 síðna blaði er af ýmsu að taka.

Í tilefni þess að fjórða Pirates-myndin, On Stranger Tides, er á leið í bíó ákváðum við að kynna okkur nýju persónurnar í sagnabálknum, því það er mikið um ný andlit í för með Jack Sparrow í þetta sinn.

Í blaðinu er skemmtilegt viðtal við besta ofleikara í heimi, Nicolas Cage, sem er algerlega á heimavelli í hlutverki brjálæðings með djöfulinn á hælunum, í amerískum kagga, með heita stelpu á húddinu og stórar, stórar byssur í höndunum í þrívíddarhasarnum Drive Angry.

Einnig er að finna viðtal við Christoph Waltz, sem fetar nýjar slóðir sem sirkusstjóri í Water for Elephants, þar sem við kynnumst hugsanagangi hans aðeins betur.

Að auki fengum við viðtal við geimmyndadrottninguna sjálfa, Sigourney Weaver, sem fer með dularfyllsta hlutverkið í Paul, nýjustu mynd snillinganna Simon Pegg og Nick Frost.

Fyrir utan viðtölin er að finna skemmtilega grein frá Bjarka Degi þar sem hann tekur saman nokkra leikara sem voru næstum því ráðnir til að leika ofurhetjur. Svo er að sjálfsögðu að finna allar upplýsingar um útgáfu mánaðarins, bæði í bíó og á DVD.

Endilega nælið ykkur í eintak í næsta bíói, leigu eða sölustað kvikmynda.

P.s. Við viljum endilega minna ykkur á að nýta atkvæðisréttinn í kosningunni um uppáhalds íslensku mynd Íslendinga frá upphafi hér á síðunni.

Maíblað Mynda mánaðarins komið út

 Maíblað Mynda mánaðarins er nú aðgengilegt hér á vefnum ásamt því sem nú er verið að koma því í dreifingu um allt land.

Helsta efnið í blaðinu er einkaviðtal við Gísla Örn Garðarsson, sem veitti okkur þann heiður að vera fyrsta íslenska blaðið sem birtir viðtal þar sem hann talar hreint út um hlutverk sitt í Prince of Persia: The Sands of Time, en hann hefur verið afar varfærinn til þessa þegar hann hefur verið spurður út í myndina.
Einnig er opnuviðtal við Russell Crowe, sem féll fyrir bogfimi við að leika í Robin Hood, auk viðtala við Mickey Rourke, sem leikur illmennið Whiplash í Iron Man 2, Neil Marshall leikstjóra Centurion, og Bruce Willis og Tracy Morgan, sem leika í Cop Out. Auk þess fékkst Miley Cyrus til að svara svokölluðum „hraðaspurningum“, en hún fetar dramatískari slóðir en áður í The Last Song.

Svo eru birtar í blaðinu niðurstöður stórrar kosningar sem haldin var hér á Kvikmyndir.is, um hver væri besta mynd tíunda áratugarins. Margt á þeim lista mun koma sumum á óvart.

Þetta 88 síðna blað inniheldur hinar hefðbundnu kynningar á útgáfu mánaðarins, bæði í bíó og á DVD, þar sem myndir eins og Sherlock Holmes, Loftkastalinn sem hrundi, Cloudy With a Chance of Meatballs, Precious, Bjarnfreðarson og Adventureland eru á leiðinni á leigur og í búðir.

Endilega kíkið á blaðið HÉR.