Í nýrri sjónvarpsútfærslu á hrollvekju Stephen King, The Mist, eða Þokunni, þá er það ekki bara það sem býr í þokunni sjálfri sem persónurnar þurfa að óttast, heldur líka það sem býr innra með þeim sjálfum.
Fyrsta stiklan fyrir Spike sjónvarpsþáttaröðina er nýkomin út, en serían verður frumsýnd 22. júní nk.
„Ég vildi fylgja upprunalegu nóvellunni eftir King af virðingu fyrir efninu, en þar sem að það var nú þegar búið að kvikmynda söguna þá breytti það ýmsu,“ sagði framleiðandinn Christian Torpe í samtali við Entertainment Weekly, og á þar við kvikmynd Frank Darabon frá árinu 2007.
„Nóvellan er 200 blaðsíður og gerist öll á einum stað, og við þurftum að breyta því aðeins. En við viljum halda tryggð við kjarnann í sögunni.“
Í stað þess að sagan gerist öll í nýlenduvöruverslun, þar sem íbúar smábæjar leita skjóls fyrir ófreskjum, og þróa með sér sína innri djöfla, þá breiðist sagan núna út á fleiri staði, meðal annars gerist hún í kirkju og í verslanamiðstöð.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: