Dúkka og djöfull í fyrstu Annabelle: Creation stiklunni

Fyrsta stiklan er komin út fyrir hrollvekjuna Annabelle: Creation, sem áður gekk undir nafninu Annabelle 2. Leikstjóri er Lights Out leikstjórinn David F. Sandberg, og framleiðandi er Saw og Conjuring leikstjórinn James Wan.

Með helstu hlutverk fara Stephanie Sigman, Talitha Bateman, Anthony LaPaglia, Miranda Otto, Lulu Wilson, Philippa Coulthard, Grace Fulton, Lou Lou Safran, Samara Lee, Taylor Buck og Mark Bramhall.

Annabelle: Creation fjallar um manninn sem bjó dúkkuna til ( LaPaglia ). 20 árum eftir að dóttir þeirra dó á sviplegan hátt, þá tekur þessi laghenti maður og sorgbitin eiginkona hans, á móti nokkrum gestum í heimsókn; nunnu og hópi stúlkna úr munaðarleysingjahæli sem þurfti að loka.

En til allrar óhamingju fyrir gestina þá er dúkkan ekkert allt of hress með þennan félagsskap.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi 11. ágúst nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: