Matthew Vaughn hættur við X-Men

Breski kvikmyndaleikstjórinn og ofurtöffarinn Matthew Vaughn hefur samkvæmt nýjustu fréttum ákveðið að stíga niður úr leikstjórastól X-Men: Days of Future Past, framhaldi hinnar velheppnuðu X-Men: First Class sem hann gerði eftirminnilega á ellefu mánuðum.

Hermt er að efstur á óskalista Fox um staðgengil hans sé enginn annar en Bryan Singer, sem eins og kunnugt er leikstýrði fyrstu tveimur X-Men myndunum, en átti einnig þátt í handriti og framleiddi X-Men: First Class. Þetta myndi þýða að þeir Singer og Vaughn myndu víxla hlutverkum sínum í þessari mynd, en Vaughn hefur unnið í handriti framhaldsins og myndi stíga til baka í framleiðandastöðu. Þá ætlaði Singer upphaflega að leikstýra First Class, en hætti við vegna skipulagsárekstra við önnur verkefni (Jack the Giant Slayer… pfff), svipað og er að gerast hjá Vaughn núna.

Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna Vaughn ákvað að bakka út úr leikstjórastöðunni, en talið er að hann muni taka að sér aðra mynd fyrir Fox, Secret Service, byggða á myndasögu Mark Millar (Kick-Ass). Það má ekki gleyma því að Vaughn hætti einnig við að leikstýra Kick-Ass 2, sem Jeff Wadlow er nú við tökur á.

Þá er gaman að rifja það upp að þetta er ekki í fyrsta skipti sem Vaughn hættir við að leikstýra X-Men mynd, en árið 2005 gekk hann í burtu frá X-Men: The Last Stand vegna þess að hann lenti í tímaþröng. Við getum spurt okkur hvernig sú mynd hefði endað ef stúdíórottan Brett Ratner hefði ekki komist í hana.

Sláandi fréttir. En eru þær góðar eða slæmar? Ef við gefum okkur að Singer taki við… Þannig að það sem ég er að spyrja að er, hvor er betri, X-Men 2 eða X-Men: First Class?