Handritshöfundur ráðinn fyrir X-Men framhald

20th Century Fox hafa ráðið Simon Kinberg til þess að skrifa handrit að framhaldi sumarsmells þeirra X-Men: First Class. Allt frá því löngu áður en myndin kom út hafa aðstandendur hennar og aðdáendur velt vöngum um framhald, en þetta er fyrsta staðfestingin á því að það sé í vinnslu. Simon Kinberg hefur áður komið við sögu í X-Men heiminum, en hann var einn handritshöfunda X-Men: The Last Stand og gegndi hlutverki framleiðanda við gerð First Class. Auk þess hefur hann átt þátt í handriti mynda eins og xXx: State of Union, Mr. & Mrs. Smith, Jumper, og Sherlock Holmes. Vá. Þegar ég lít yfir þetta er þessi listi alls ekkert of lofandi – er ekki Sherlock Holmes eina sæmilega góða myndin þarna? En við verðum bara að vona hið besta.

En hverju megum við búast við frá framhaldinu? Einn vandi sem Kinsberg mun standa frammi fyrir er að búa til áhugaverða sögu sem breytir samt ekki neinu, en First Class lauk á þann hátt að allt var nokkurnvegin orðið eins og það var 40 árum seinna í fyrstu X-Men myndinni, Magneto og Mystique orðin vond og Professor X byrjaður með skólann. Við vitum að nær allur leikhópurinn skrifaði upp á samninga að snúa aftur – og við eigum örugglega von á einhverjum nýjum stökkbreytingum. Ekki er víst hvort Matthew Vaughn snúi aftur, en í viðtali sem hann veitti fyrir nokkru sagðist hann vera meira en til í það. Í því viðtali lýsti hann einnig hugmynd sem hann hefði fyrir framhald:

„Það væri gaman að byrja á morðinu á Kennedy, og sýna það að töfrakúlunni var stjórnað af Magneto. Það myndi skýra eðlisfræði atriðisins, og við myndum sjá að hann Magneto væri fúll yfir því að Kennedy tók allan heiðurinn af því að bjarga heiminum og minntist ekki einu sinni á hina stökkbreyttu.“

James McAvoy lét einnig hugann reika í viðtali: „Í First Class notar hann Cerebro í fyrsta skipti og kannski breytir tækið einhverju í höfðinu á honum – kannski nær hann ekki að halda röddunum úti eða eitthvað. Þannig að í annari myndinni gæti hann verið að reyna að koma sér út úr þeim vanda. Og í þriðju myndinni myndi hann breytast í… Patrick Stewart!“

Eitt sem ég held að væri góð hugmynd að setja í myndina væri einhver saga sem skýrði hvernig Mystique og Azazel eignast barn saman (Nightcrawler) og skilja eftir til að alast upp í Þýskalandi. En þetta eru bara vangaveltur. Hvað myndi ykkur langa til að sjá í X-Men framhaldi?