Verður tímaflakk i næstu X-Men mynd?

Skráningar af ýmsu tagi gefa vökulum kvikmyndaaðdáendum oft upplýsingar um ýmislegt sem ekki átti að tilkynna strax. Titill Skyfall, upgötvaðist til dæmis vegna lénskráninga Sony áður en hann var tilkynntur síðasta haust, og það sama gilti um Quantum of Solace á undan henni, svo eitthvað sé nefnt.

20th Century Fox skráði á dögunum titilinn Days of Future Past hjá MPAA, sem er gert til þess að forðast að kvikmyndaver þrói myndir með líka titla. Upp spruttu vangaveltur um hvort verið geti að þetta vísi til næstu X-men myndar, framhaldinu af X-Men: First Class, því árið 1981 var birt X-Men saga í tveimur hlutum með þessu nafni. Fox er sem kunnugt er framleiðandi X-Men myndanna.

Það sem er áhugavert er að sagan gerist á tveimur tímasviðum, og býður því upp á mögleikann á því að sameina hluta af leikhóp upphaflegu myndanna við leikhóp endurræsingarinnar frá því í fyrra. Einnig gæti sagan boðið upp á útskýringu á hvers vegna svo margt stemmdi ekki í First Class og fyrstu X-Men myndinni – sem gæti þá vera sögð gerast í „öðrum raunveruleika“ – à la Star Trek frá 2009.

Að sjálfsögðu eru þetta ekkert nema getgátur á þessu stigi málsins. Vel gæti verið að Days of Future Past sé bara einfaldlega einhver allt önnur mynd sem fyrir tilviljun ber sama titil og 30 ára gömul myndasaga. Einnig gæti verið að Fox hugsi sér að aðlaga söguna, en ekki í framhaldinu af First Class, heldur sem X-Men 4, sem hefur aldrei verið slegin alveg af borðinu. Ykkar gisk er jafn gott og mitt. En kenningin um að tímaflakkið verði notað til að leiðrétta „villurnar“ á milli myndanna auk þess að sameina leikhópana á einhvern hátt er skemmtilegust að mínu mati.

Tilkynnt var nýlega að hið enn sem komið er ótitlaða framhald af First Class (X-Men: Days of Future Past?) komi í bíó í júlí 2014.  Geta má þess að á sama tíma var gefið upp að Dawn of the Planet of the Apes komi í maí 2014. The Wolverine -sem tæknilega séð er þá næsta X-Men mynd –  er svo áætluð í Júlí 2013, en það verður örugglega ekkert tímaflakksvesen í henni.