Það er aðeins eitt sem er öruggt um helgina – það verður hægt að hlægja frá sér allt vit og skemmta sér konunglega í bíó. Ástæðurnar eru tvær. Framhald íslensku gamanmyndarinnar Síðasta veiðiferðin, Allra síðasta veiðiferðin, kemur í bíó og sömuleiðis Dreamworks teiknimyndin Þrjótarnir, eða The Bad Guys.
Síðasta veiðiferðin sló í gegn og varð vinsælasta kvikmynd ársins 2020. Rúmlega 35 þúsund manns borguðu sig inn til að sjá myndina og tekjurnar námu tæpum sextíu og tveimur milljónum króna.
Það verður spennandi að sjá hvað nýja myndin gerir, en eins og annar leikstjóranna, Þorkell Harðarson, sagði í viðtali á Rás 2 þá fjallar myndin í raun ekki um veiði heldur um vináttu.
Eins og sjá má í stiklu myndarinnar er aftur farið í veiðiferð og nú ætla menn bara að vera stilltir og láta áfengið eiga sig. Allt virðist hinsvegar fara á annan veg með sprenghlægilegum afleiðingum.
Meira rugl og áfengi
Höfundar myndarinnar, Markel-bræður, þeir Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson, segja í samtali við mbl.is þegar þeir eru spurðir hvort að myndin sé betri en sú síðasta: „Hún er stærri. Fleiri leikarar og meiri læti. Já og meira rugl og áfengi,“ svarar Örn Marinó. Þorkell bætir við: „Já, það bætast inn leiðsögumenn í henni og lögreglukonurnar spila stærra hlutverk og hún er stærri í sniðum.“
Leikarahópurinn er fjölmennari en í fyrri myndinni og stórleikarinn Sigurður Sigurjónsson kemur nýr inn sem tengdapabbi Vals Aðalsteinssonar fjárfestis, sem Þorsteinn Bachmann leikur. Aðstandendur myndarinnar segja við mbl.is að þar hitti skrattinn ömmu sína og vísa til veiðifrekju Vals.
Opinber söguþráður er þessi:
Eftir ævintýralegan laxveiðitúr fyrra sumars er ákveðið að halda aftur til veiða, þrátt fyrir misgóðar minningar úr þeim túr. Til að koma sér áfram í pólitík býður Valur Aðalsteins félögunum í flotta laxveiði með því skilyrði að þeir hagi sér vel og ekkert megi klikka. Vegurinn til Helvítis er eins og áður varðaður góðum ásetningi og er þessi túr ekki undanskilin því.
Þriðja myndin á leiðinni
Þess má einnig geta að tökur á þriðju myndinni, Langsíðustu veiðiferðinni fara fram í sumar og hún verður að stærstum hluta með sama leikarahóp. Þá mun hópurinn halda aftur til veiða í Mýrarkvísl eins og í fyrstu myndinni og verður myndin tekin upp þar. Allra síðasta veiðiferðin gerist hinsvegar í Laxá í Aðaldal og er tekin upp þar.
Sami höfundur og Tropic Thunder
Það sem vekur með manni sérstaka eftirvæntingu eftir Þrjótunum er handritshöfundur myndarinnar, Etan Cohen, sem á að baki fjölda sprenghlægilegra mynda. Nægir þar að nefna Idiocracy, Tropic Thunder, Get Hard og Madagascar: Escape 2 Africa.
Myndin er gerð eftir metsölubókinni Bad Guys“ sem kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 2016. 2,2 milljónir eintaka hafa selst af bókinni.
Opinber söguþráður er þessi:
Aldrei hafa fimm vinir verið eins alræmdir og Þrjótarnir – hinn töfrandi vasaþjófur Mr. Wolf, hinn gamalreyndi sérfræðingur í peningaskápum Mr. Snake, dulargervameistarinn Mr. Shark, hinn skapstyggi þrjótur Mr. Piranha og hinn tungulipri hakkari Ms. Tarantula, öðru nafni Webs. En þegar gengið er loksins gómað þá gerir Mr. Wolf samning um að ef þau sleppi við fangavist þá ætli þau að hætta öllu misjöfnu. Þau ætla að sjálfsögðu ekki að virða samninginn en hyggjast blekkja heiminn og láta alla trúa að þau séu orðin hin mestu ljúfmenni. Á sama tíma fer Mr. Wolf þó að spá í hvort að góðverkin muni veita honum það sem hann hefur alltaf þráð: viðurkenningu. En þegar nýr þrjótur ógnar borginni, mun Mr. Wolf takast að sannfæra hina um að verða … The Good Guys, eða Góðu gaurarnir? …