Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Magnolia 1999

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 25. febrúar 2000

Things fall down. People look up. And when it rains, it pours.

188 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 82% Critics
The Movies database einkunn 78
/100
Tilnefnd til þriggja Óskarsverðlauna: Tom Cruise fyrir leik í aukahlutverki, Paul Thomas Anderson fyrir handrit, Aimee Mann fyrir besta lag, "Save Me".

Hér segir frá 8 mismunandi einstaklingum sem eiga mismikið sameiginlegt en vegir þeirra stangast á áður en langt um líður. Kvikmyndin Magnolia lýsir einum sólarhring í lífi nokkurra ólíkra einstaklinga í Los Angeles. Þeir eru allir að kljást við líf sitt og aðstæður í sundurlausum veruleika firringarinnar í hinu svonefnda postmodern-samfélagi. Hér raðast... Lesa meira

Hér segir frá 8 mismunandi einstaklingum sem eiga mismikið sameiginlegt en vegir þeirra stangast á áður en langt um líður. Kvikmyndin Magnolia lýsir einum sólarhring í lífi nokkurra ólíkra einstaklinga í Los Angeles. Þeir eru allir að kljást við líf sitt og aðstæður í sundurlausum veruleika firringarinnar í hinu svonefnda postmodern-samfélagi. Hér raðast saman níu svipmyndir eða sögur af þessu fólki sem gengur misvel - eða illa að fóta sig í óreiðunni og smám saman sést hvernig það tengist innbyrðis í öllu sambandsleysinu. Myndin hefst á eins konar formála sem hefur að geyma þrjár stuttar sögur af furðulegum atvikum. Þær varpa fram spurningunni um hvort ótrúlegir atburðir hafi í raun gerst og þá hvort um tilviljun hafi verið að ræða eða ekki. Þeirri hugsun er síðan fylgt eftir í Magnoliu. Einstaklingarnir sem Magnolia greinir frá tengjast í raun beint eða óbeint í gegnum sjónvarpsþátt sem kallast "What Do Kids Know?". Þar er um að ræða spurningaleik milli barna og fullorðinna. Framleiðandi þáttanna er Earl Partridge en hann liggur fyrir dauðanum af völdum krabbameins. Hann þjáist einnig vegna framkomu sinnar gagnvart fyrri konu sinni og syni. Seinni kona Earls, Linda, er töluvert yngri en hann og hafði upphaflega gifst honum til fjár. Hún hafði haldið framhjá honum en á nú erfitt með að horfast í augu við dauða hans vegna þess að hún er farin að elska hann. Sá sem annast Earl á banalegunni er hjúkrunarfræðingur að nafni Phil Parma. Earl biður hann að koma sér í samband við son sinn, Frank T.J. Mackey, sem hann hafði hvorki séð né heyrt í mörg ár. Frank heldur námskeið og framleiðir myndbönd handa karlmönnum um það hvernig þeir geti komist yfir konur og gert þær sér undirgefnar. Stjórnandi spurningaleiksins "What Do Kids Know?" til margra ára er Jimmy Gator. Hann er einnig að deyja úr krabbameini en er ekki eins langt leiddur og Earl. Samband hans við dóttur hans, Claudiu, er í molum og hún vill ekkert af honum vita vegna þess að hann hafði misnotað hana kynferðislega þegar hún var yngri. Claudia er eiturlyfjasjúklingur með ónýta sjálfsmynd og ræður engan veginn við líf sitt. Lögreglumaður að nafni Jim Kurring kemur í íbúð hennar vegna kvörtunar um hávaða frá nágrönnum og endar með því að bjóða henni út að borða. Hann er einlæglega trúaður og leitast við að framganga samkvæmt því. Tveir þátttakenda í "What Do Kids Know?" koma einnig við sögu. Annars vegar Stanley Spector, ungur drengur sem er afburða gáfaður, en er fyrst og fremst notaður af föður sínum til að græða peninga með þátttökunni í spurningaleiknum. Hins vegar er það Donnie Smith sem hafði unnið í spurningaleiknum þrjátíu árum fyrr en foreldrar hans höfðu notað hann á svipaðan hátt og stolið af honum allri vinningsupphæðinni. Honum gengur illa að fóta sig í tilverunni og missir m.a. vinnuna. Allt er þetta fólk á einhvern hátt þjakað af aðstæðum sínum og fortíð og því gengur illa að fást við líf sitt og tilgang þess og samskipti við samferðafólk. Afleiðingarnar eru ýmist flótti frá raunveruleikanum eða örvænting og vonleysi.... minna

Aðalleikarar


Þó að 'magnolia' sé ekkert sérlega skemmtileg mynd, þá gerir hún nákvæmlega það sem hún á að gera, og hún gerir það snilldarlega vel. Persónurnar í myndinni eru fjölmargar og hver einasta þeirra er mjög sérstök og litrík, og einhvern veginn tengjast þær allar. Tengingin er þó svolítið firrt og fjarlæg. Samkvæmt sögumanni eru engar tilviljanir til, og á áhorfandinn sjálfsagt að draga þá ályktun að lítil kraftaverk eigi sér stöðugt stað í heiminum, þrátt fyrir að tengsl fólks séu hugsanlega brengluð og slitin. Lítil kraftaverk eins og að sonur fyrirgefi föður sínum gamlar syndir, að móðir uppgötvar misnotkun á dóttur sinni og finnur leið til að nálgast hana aftur, snillingur gerir sér grein fyrir að gáfurnar eru ekki allt, heimskur maður uppgötvar að glæpir borga sig ekki, lögga uppgötvar að fólk er til fyrir utan ramma laganna, og svo framvegis. Í hverri einustu persónu myndarinnar á lítið kraftaverk sér stað, sem er sjálfsagt ekkert síðra en sú fegurð sem birtist þegar blóm magnólíunnar springur út. Reyndar gerist eitt kraftaverk í myndinni sem er alls ekki trúverðugt á nokkurn hátt, en það er notað til að undirstrika það að stundum gerast hlutir sem maður getur einfaldlega ekki útskýrt. Og þessir hlutir sem maður getur ekki útskýrt eru oft eitthvað sem leynist innra með manni sjálfum. Ljóst er að leikstjórinn, P.T. Anderson hefur gífurlega hæfileika sem leikstjóri og áhugavert að hann notar ekki stórt nafn eins og Tom Cruise til að slengja ímynd sinni áfram. Þvert á móti sýnir Cruise stórleik í sínu hlutverki og hefði mátt hirða óskarinn fyrir. Handritið er vel spunnið völundarhús sem krefst þess þó af áhorfendum að þeir leggi á sig smá vinnu til að átta sig á hlutunum. Fátt er útskýrt öðruvísi en ég litlum vísbendingum. Þetta er mynd sem hvetur fólk til að hugsa, og ekki ólíklegt að það leiði fólk sem horfir saman á myndina í samræður um trú og kraftaverk. Margar spennandi spurningar spretta fram eftir áhorfun, eins og: Hvernig ætli standi á því að svona margir hlutir ganga upp? Hvernig stendur á því að mörg lítil kraftaverk eiga sér stað á hverjum degi? Hvernig stendur á að við tökum þau sem sjálfsagðan hlut? Er þessum kraftaverkum stjórnað af einhverju eða einhverjum, eða erum við bara að fylgja lögmálum alheimsins í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur? Einnig er fjallað mikið um örlög, en á skemmtilega snúinn hátt. Í stað þess að gera ráð fyrir að örlög hverrar manneskju séu ráðin af einhverri guðlegri veru eða einhverju öðru, þá er stærsti örlagavaldur í lífi hverrar manneskju hennar eigin fortíð. Það er ekki fyrr en þú hefur tekist á við vandann í eigin fortíð að þú getur byrjað að mynda þér ný örlög, sem byggjast þá sjálfsagt á því sem þú ákveður á hverri stundu. Semsagt, heimspekileg, siðfræðileg og fagurfræðileg umræða getur notið góðs af þessari mynd. Ekkert sérstaklega skemmtileg, en djúp og áhugaverð fyrir þá sem hafa gaman af að spá í lífinu og tilverunni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja.

Þessi mynd fjallar nákvæmlega um ekki neitt og alveg með ólíkindum að hún skuli hafa fengið þetta góða dóma.

Ég er samt ekki að segja að þessi mynd sé hundleiðinleg, en hún er ekki jafn góð og margir segja.

Stærsti gallinn við myndina var hvað hún var alltof löng, það virkar bara ekki við svona Drama-listrænar-bull myndir.

Stærsti plúsinn við myndina er leikaravalið og hvernig þeir fara með hlutverk sín.

Það getur vel verið að ef ég horfi á hana aftur þá skilji ég hana eitthvað betur og fíli myndina í tætlur, en ég mun ekki horfa á hana aftur í bráð.


Ágætis mynd ef maður hefur ekkert annað til að horfa á.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Virkilega góð mynd en af allt öðrum toga en maður bjóst við eftir að P.T.Anderson gerði Boogie Nights.Myndin líður áfram ótrúlega hægt nánast allan tímann nema þá helst þegar Tom Cruise er á skjánum en allir atburðir,stórleikur ofan á stórleik og frábærar samræður gera þetta eina af skemmtilegri myndum sem ég hef séð.Það er varla hægt að taka einhvern ákveðinn leikara og segja að hann hafi staðið sig best en þó fannst mér hlutverk Tom Cruise það skemmtilegasta.Endirinn á myndinni breytti sýn minni á kvikmyndagerð enda er það með eindæmum flott.Frábær mynd með fullt af úrvalsleikurum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þetta er líklega besta mynd sem ég hef séð. Hvílík snilld. Eini galli myndarinnar er að hún er ofgóð, of vönduð og of metnaðarfull til að ná til fjöldans (ólíkt American Beauty). Það kom ekki mjög á óvart að myndin var sniðgengin af óskarnum þrátt fyrir að vera besta mynd ársins. Mikið hefur verið skirfað um leikarana og söguþráðin en lítið hefur verið sagt um þema myndarinnar. Í raun er þetta mjög trúarleg mynd sem boðar iðrun og fyrirgefningu. Eitt magnaðasta atriði kvikmyndasögunnar er sótt í Gamla testamentið, þ.e. plágurnar í Egyptalandi. Margir hafa talað um stórkostlegan leik Tom Cruise en persónulega finnst mér það of-lof. Allir leika stórkostlega en fremstur á meðal jafningja er bjartasta von Hollywood Philip Seymour Hoffman. Ég tek hattinn ofan fyrir leikstjóra myndarinnar Paul Thomas Anderson, hvílík snilld, hvílíkt hugrekki, hvílík dýpt. Ég fór á myndina strax fyrstu sýningarvikuna og enn þá dag í dag hugsa ég til hennar nær daglega. Þetta er ein af þeim myndum sem fylgja manni eins og vinur í gegnum lífið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þetta er algjört meistaraverk. Leikurinn hjá Tom Cruise, William H. Macy og öllum hinum er alveg frábær. Brilliant mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn