Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Urban Legends: Final Cut 2000

(Urban Legend 2)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 15. desember 2000

Legends never die

97 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 10% Critics
The Movies database einkunn 16
/100

Myndin fjallar um Amy Mayfield sem er nemandi við Alpine háskólann sem er að vinna að mynd um flökkusögur í borginni - þegar einn úr tökuliðinu deyr í slysi. Amy fyllist grunsemdum, og rannsakar málið og kemst að því að einhver illkvittin öfl eru að verki. Núna þarf hún að afhjúpa morðingjann áður en hún verður einnig fórnarlamb hans.

Aðalleikarar


Fyrst vil ég byrja á því að segja að þessi mynd er mesta rugl sem maður getur horft á. Hún er leiðinleg á alla vegu. Og þótt að þetta sé ekki um myndina, hvernig geta menn nennað að gera svona langa gagnrýni um svona ógeðslega leiðinlega mynd, ég bara spyr?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Ég veit ekki hvar ég á að byrja með að úthúða þessari hryllilegu mynd. Ég gæti náttúrulega byrjað á því að tala um forvera myndarinnar, Urban Legend, sem var svo léleg að það að gera þessa framhaldsmynd er eiginlega glæpur í sjálfu sér. Svo gæti ég líka talað um það hvernig John Ottman stelur, bæði sem leikstjóri og tónskáld, úr of mörgum myndum. Hér var hægt að sjá brot úr t.d. Silence of the Lambs, Se7en, Twin Peaks (!) og jafnvel Alien. Sem tónskáld þá stælaði Ottman Jerry Goldsmith svo mikið að mér leið illa: tónlist Goldsmith úr Alien, Poltergeist og Basic Instinct var í mörgum atriðum og svo mátti líka heyra Howard Shore takta, kannski til að reyna að gefa myndinni smá elegant-stíl. Það tókst ekki. Eins og í fyrri myndinni er leikhópurinn samsettur af óþekktum leikurum sem munu líklegast haldast óþekkir um óákveðna framtíð. Persónurnar sem þessir "leikarar" "leika" eru enn verri, heimskar, vitlausar og tilfinningalausar og ég efast um það að einhver geti munað eftir því hvað þær hétu. Ef við ætlum að tala um persónur þá verðum við að fara eitthvað í handritið. Handritið að þessari mynd hefur líklegast heitið á einhverju stigi "Spot the references!" þar sem það eina sem það reynir að gera gáfulegt er einhver gamall, leiðinlegur og lélegur (a.m.k. í þessari mynd) sjálfsvísunarhúmor. Myndin sjálf gengur út á það að kvikmyndanemar eru drepnir af óþekktum morðingja með skylmingargrímu sem klæðist leðurfrakka. Mjög scary. Flestir deyja, allir eru grunaðir en aðeins ein manneskja er morðinginn og þó það sé kannski persóna sem maður býst alls ekki við þá er afhjúpunin alveg hræðileg. En talandi um eitthvað hræðilegt, leikstjórn John Ottman. Þessi maður getur svo sannarlega samið tónlist (Usual Suspects o.fl.) en hann er gjörsamlega hæfileikalaus þegar kemur að leikstjórn. Spennan sem hann reynir að búa til byggir ekki lengur á óttanum við hvor e-r eigi eftir að deyja eða ekki vegna þess að við vitum hver á eftir að deyja og hvenær, það er svo augljóst í þessari mynd. Nei, við erum spennt yfir því hvenær Ottman hendir á okkur öðru bregðuatriði, og þó honum takist að bregða manni nokkrum sinnum á alls ekki að byggja upp spennu svona. Sérstaklega þar sem hann er greinilega að reyna að búa til einhvern Hitchcock-fílíng en gleymir því að Hitchcock var aldrei svo ófrumlegur að nota bregðuatriði í sífellu til að hræða bíógesti. Ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um lélegan leikinn, ömurlegt handritið - og þá tvíburabróðurinn - eða ófrumlega dauðdaga, ég held að flestir átti sig á því að þetta er mynd sem ekki á að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þegar maður fer á unglingahrollvekjur eins og þessa eru þurfa væntingar manns að vera aðrar en venjulega - það besta sem maður getur vonast eftir er spenna, ef til vill húmor og söguþræði sem er smá vit í ef maður er heppinn að ógleymdu slatta af blóði. Urban Legends nær að uppfylla fyrstu tvö atriðin en mistekst hroðalega í því þriðja. Hvað myndir þú gera ef þú sæjir myndband af vini þínum myrtan á hrottalegan hátt og vissir ekki hvort það væri raunverulegt eða plat? Ef þú ert persóna í Urban Legends þá myndirðu allavega ekki láta þér detta í hug að hafa upp á þessum vini til þess að komast að því hvort hann sé enn á lífi. Og hvað myndirðu gera ef þú vissir fyrir víst að fjöldamorðingi myndi gera tilraun til þess að drepa þig næsta dag en náungi sem þú ert nýbúinn að kynnast og tengist fyrrverandi fórnarlambi vill ekki fara til lögreglunnar vegna vafasamrar fortíðar? Ef þú ert persóna í Urban Legends myndi þér ekki detta í hug að fara til lögreglunnar án þess að blanda þessum aðila í málið heldur reyna að ná morðingjanum á eigin spýtur án þess að grípa til neinna raunverulegra varúðarráðstafana. Svona dæmi má finna hvívetna handritinu og þau draga myndina töluvert niður. Það er ekkert nýtt að persónur í hryllingsmyndum hegði sér ekki á rökréttan hátt en hér kemst þetta á nýtt stig heimsku. Aftur á móti eru þó nokkur atriði sem ná að byggja upp góða spennu - góð myndataka og hljóðrás hjálpa mikið til við þetta. Eins og fyrri myndin byggir þessi á sögum og orðrómum sem "allir" hafa heyrt um ákveðin atvik en enginn veit hvar þau gerðust eða hver varð fyrir þeim. Maður skyldi halda að listinn væri nokkurn veginn tæmdur eftir fyrstu myndina en handritshöfundunum tekst að kreista fram nokkur ný - reyndar misfrumleg. Ég er tilbúinn til þess að fyrirgefa flesta af þeim göllum sem handritið hefur (og þeir eru þó nokkrir eins og ég kom inn á áðan) en mér blöskraði endirinn. Þar er reynt að gera eitthvað voða sniðugt með því að leika sér með mörk raunveruleikans en það mistekst algerlega, það er ekkert vit í því og það er hrein og bein móðgun við áhorfendur. Aldrei man ég eftir að mynd hafi náð að hrapa hjá mér um eina og hálfa stjörnu á einni mínútu svo að Urban Legends fær heiðurinn af því að verða sú fyrsta. Staðreyndin er sú að það er ekki gert sérstaklega mikið af hryllingsmyndum í dag og megnið af því sem er gert er algert drasl (mun verra en þessi mynd) sem fer beint á vídeó - þess vegna geta hrollvekjufíklar alveg gert vitlausari hluti en að kíkja á þessa mynd, en ég ráðlegg fólki grínlaust að labba út strax og síðasta spennuatriðinu líkur. Áramótaheitið mitt í ár verður að sjá ekki Urban Legends 3 þegar/ef hún verður gerð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn