Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

Before Sunset 2004

(Before Sunrise 2)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 25. ágúst 2004

What if you had a second chance with the one that got away?

80 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 94% Critics
The Movies database einkunn 91
/100

Bandaríkjamaðurinn Jesse Wallace er á fertugsaldri. Hann er í bókaverslun í París, sem er síðasti viðkomustaður á kynningarferð þar sem hann er að kynna metsölubók sína, This Time. Þó að hann tali með óljósum hætti um innblásturinn að bókinni, þá er hann þar að fjalla um kynni sín níu árum fyrr, þann 15. og 16. júní árið 1995, við stúlku... Lesa meira

Bandaríkjamaðurinn Jesse Wallace er á fertugsaldri. Hann er í bókaverslun í París, sem er síðasti viðkomustaður á kynningarferð þar sem hann er að kynna metsölubók sína, This Time. Þó að hann tali með óljósum hætti um innblásturinn að bókinni, þá er hann þar að fjalla um kynni sín níu árum fyrr, þann 15. og 16. júní árið 1995, við stúlku frá París að nafni Celine, og minnisstæðan og rómantískan dag og kvöld sem þau áttu saman í Vínarborg. Þegar samverustund þeirra er að ljúka á lestarstöð í Vín, sem er einnig eins og bókin endar, þá heita þau því, án þess að skilja eftir tengiliðaupplýsingar til hvors annars, að hittast að nýju eftir nákvæmlega sex mánuði á nákvæmlega sama stað. Þegar blaðamannafundurinn í bókabúðinni er að klárast þá sér Jesse að Celine er í hópi fólksins í búðinni, en hún frétti af bókinni þegar hún sá ljósmynd af honum í auglýsingu fyrir bókakynninguna. Rétt eins og þegar þau hittust síðast, þá ákeða þau Jesse og Celine, sem nú er umhverfisaðgerðasinni, að eyða smá tíma saman þar til hann þarf að ná flugvél heim til New York, sem er aðeins um ein klukkustund. Auk þess að ræða um fundinn sem þau ætluðu að eiga eftir sex mánuði, og um hvað hefur gerst í lífi þeirra á árunum níu sem liðin eru, og daginn í dag, þá ræða þau um lífið og ástina, í samhengi við daginn sem þau áttu saman, og þau áhrif sem hann hafði á þau. ... minna

Aðalleikarar

Yndislegt framhald af brilliant ástarsögu
Ég er sjálfsagt í minnihluta með að segja þetta en þessari mynd beið ég persónulega mjög spenntur eftir. Ástæðurnar eru tvær: Fyrst og fremst þá er Richard Linklater (maðurinn á bakvið m.a. Dazed & Confused, Waking Life, Tape og að sjálfsögðu Before Sunrise) einhver vanmetnasti og sérstakasti leikstjóri nútímans. Myndirnar hans eru margar fjölbreyttar (tek það t.d. fram að ég tel ekki The Newton Boys, subUrbia og The School of Rock í sama flokki og þær fyrrnefndu) en flestar á einhvern hátt athyglisverðar og manneskjulegar. En hann er umfram allt óhræddur við að fara nýjar leiðir og því eru sumar myndir hans alls ekki fyrir alla, en það undirstrikar líklega bara hversu fjölhæfur og 'óhefðbundinn' leikstjóri hann er. Önnur ástæða fyrir væntingum mínum til þessarar myndar er sú að Before Sunrise er að mínu mati ein best heppnaða ástarsaga sem ég hef nokkurn tímann séð kvikmyndaða. Söguþráður var sama og enginn, heldur gekk myndin bara út á samræður og samveru þeirra Julie Delpy og Ethan Hawke, og þetta gekk allt svo fullkomlega vel upp einfaldlega vegna hversu vel þau náðu saman. Þau eru dýrðyndisleg vægast sagt og tvímælalaust eitthvað það raunverulegasta og trúverðugasta ''skjápar'' sem tilheyrir kvikmyndasögunni.

En nú er komið að Before Sunset, sem telst bæði beint og óbeint framhald. Hawke og Delpy eru sameinuð aftur 9 árum seinna (ef þið teljið ekki ''gestahlutverk'' þeirra í Waking Life með þ.e.a.s.) og hafa alls ekki tapað neistanum því það er alveg yndislegt að horfa á þau saman. Ástríðan á milli þeirra er svo heit að áhorfandinn finnur fyrir henni. Að mínu mati hafa hvorugir leikararnir staðið sig betur í sitthvoru lagi. Myndin sjálf er að langflestu leyti ódýr og það er léttilega hægt að sjá að ekki margir tökudagar hafa farið í hana. Atburðarrásin gerist meira að segja í rauntímanum, sem gefur þessu öllu saman mjög raunverulegt yfirbragð. Samtölin sem hér eru til staðar eru ótrúlega sérstæð, rétt eins og áður fyrr, en það sem gerir þau meira spes er að þau voru að langflestu leyti bara uppspunnin af leikurunum. Og eins og ég áður sagði, þá geislar hreinlega af þeim tveimur.

Before Sunset er jafningi forvera síns að nánast öllu leyti. Þetta er tilvalið dæmi um hversu frábærar ástarsögur geta orðið án þess að þurfa að fylgja eftir sífellt þreyttum formúlunum og klisjum. Þetta er raunveruleikabundin mynd og ekkert annað, sem fjallar um par sem maður heldur með og virkilega vill að nái saman á endanum.

Vissulega mun myndin höfða ekki til allra. Að horfa á Before Sunset er ekki eins og að horfa á flestar myndir. Það er nánast engin uppbygging eða einhver þróun á plotti, og þeir sem eru lítt gefnir fyrir rólega og lágstemmda atburðarrás sem krefst mikillar þolinmæði munu væntanlega svæfa sig úr leiðindum. Þetta er bara spurning um að vera inni í augnabliki myndarinnar, og þeir sem kunna virkilega að meta góðar kvikmyndir og vel þróaða ástarsögu á skjánum í stað þá ýktu og formúludrifnu ættu að rífa sig upp úr sætunum og kíkja á þessa mynd. Það er skylda!

9/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn