Náðu í appið
Bönnuð innan 18 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Funny Games 2007

(Funny Games U.S.)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 5. ágúst 2009

Eigum við að byrja ?

111 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 53% Critics
The Movies database einkunn 44
/100
1 verðlaun

Vel stæð hjón eru ásamt syni sínum tekin til fanga af tveimur ungum drengjum í sumarhúsi sínu. Í fyrstu eru drengirnir afar kurteisir, en sjúkir leikir þeirra ágerast og líkamlegt og andlegt ofbeldi gagnvart fjölskyldunni versnar eftir því sem líður á nóttina. Ljóst er að líf þeirra allra eru í hættu og annar drengjanna gerir veðmál við áhorfendur:... Lesa meira

Vel stæð hjón eru ásamt syni sínum tekin til fanga af tveimur ungum drengjum í sumarhúsi sínu. Í fyrstu eru drengirnir afar kurteisir, en sjúkir leikir þeirra ágerast og líkamlegt og andlegt ofbeldi gagnvart fjölskyldunni versnar eftir því sem líður á nóttina. Ljóst er að líf þeirra allra eru í hættu og annar drengjanna gerir veðmál við áhorfendur: Allir fjölskyldumeðlimir verða dauðir fyrir kl. 9 um morguninn. Það sem eftir lifir nætur, er stóra spurningin: Mun einhver lifa af?... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Ekki hægt að laga það sem er þegar í toppstandi
Ég hef aldrei verið hrifinn af skref-fyrir-skref endurgerðum. Það er bókstaflega enginn tilgangur með þeim, enda sóun á dýrmætri filmu vegna þess að það er enginn metnaður fyrir því að kanna nýjar slóðir, heldur er bara verið að kópera eitthvað sem er þegar til. Mér finnst líka virkilega súrt að Michael Haneke hafi sett sig í nákvæmlega sömu spor og áður. Þessi ameríska útgáfa af Funny Games er, án djóks, alveg eins að öllu leyti nema hún er á ensku og það eina sem gerir upplifunina ólíka er að þú þarft ekki að lesa texta allan tímann, en það veltur svosem á því hversu góð/ur þú ert í ensku.

Hins vegar, ef þú hefur ekki séð austurrísku myndina, þá skiptir það litlu. Þú færð sömu upplifun út úr þessari og munt pottþétt ekki fíla söguna neitt síður. Það er bara spurning um hvor myndina þú sérð á undan. Burtséð frá því að ég sá bara sama hlutinn aftur þá finnst mér Funny Games virka betur á þýsku, einfaldlega vegna þess að öll sagan er einn stór útúrsnúningur á bandarískar klisjur, svo mér finnst það meira við hæfi að sjá evrópska mynd koma með þau skilaboð. Þar að auki fíla ég frummyndina betur vegna þess að lykilframmistöðurnar eru örlítið eftirminnilegri.

Þegar ég sá gömlu myndina fyrst var ég ekkert æðislega hrifinn (mig minnir að fyrstu viðbrögð mín hafi verið: "ha??"). Það var ekki fyrr en ég náði að melta hana og pæla í því sem hún var að segja þegar ég sá hversu snjöll, óvænt og öðruvísi hún væri. Hún stillir sig upp eins og klisja þar sem þú þekkir framvinduna og telur þig vita framhaldið. Maður býst við kvikmynd sem er á sjálfsstýringu, en það er hún alls ekki. Mér fannst líka brilliant hvernig hún náði að rjúfa fjórða vegginn og ávarpa áhorfandann með það í huga að hann átti von á formúlumynd.

Funny Games U.S. er ótrúlega vel leikin, það vantar ekki. Naomi Watts neglir hlutverkið glæsilega án þess að apa eftir upprunalegu leikkonunni. Tim Roth er líka mjög öflugur. Myndin er samt alfarið í höndum þeirra Michael Pitt og Brady Corbett. Þeir standa sig mjög vel en samt hverfa þeir svolítið í skuggann á leikurum upprunalegu myndarinnar. Mér finnst það líka ekki virka eins vel þegar Pitt ávarpar áhorfandann. Það virkar ekki eins mikið fyrir frammistöðu hans og það gerði fyrir Arno Frisch, sem var hátt í fullkominn í hinni myndinni.

Myndatakan er síðan alveg nákvæmlega eins, sem þýðir að hún er sjúklega flott. Haneke hefur greinilega þurft að leggja meira á sig til að skapa sömu skotin sem einkenndu frumútgáfuna, eins og allar þessar löngu, óklipptu tökur þar sem heilar senur spilast út í fjölmargar mínútur. Andrúmsloftið er eins og m.a.s. tónlistarnotkunin líka. Heneke hefur sjálfsagt vitað hversu vel hann stóð sig í fyrri lotu, en þá verð ég að halda áfram að spyrja: Til hvers þá að gera sama hlutinn aftur??

Funny Games U.S. er ábyggilega geggjuð mynd fyrir þá sem vilja sjá eitthvað öðruvísi og hafa ekki séð frummyndina. Mér finnst hún samt óþörf. Reyndar hef ég sjaldan vitað um eins tilgangslausa endurgerð og þessa og þar er heilmikið sagt ("if it ain't broke, don't fix it"). Ef þið spyrjið mig, þá vil ég frekar benda ykkur á að horfa á þá gömlu og sjá þar þá kvikindislegu en djöfulli sterku ádeilu á ofbeldi (og hvernig bandarískar myndir gera það "töff") sem hún er. Þessi má sitja í hillunni og safna ryki. Fær nokkur stig fyrir leikaranna.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rétt nafn á myndinni : Ógeðslegir leikir
=Hugsanlegur spoiler=

Nafnið er kaldhæðni á myndinni. Því að þessi mynd er ekki fyndin. Þótt að þessir leikir sem eru í myndinni er ekki að tala um pyntingar sérsaklega (naglar í rifbein, nálar undir neglur eða skera sig með rakvélar annars færðu kylfu uppí boruna á þér) þá eru svona píníngar. Pína mann að gera þetta, hóta fólkinu, hræðsla og það ógeðslega við mynda að þetta er hægt. Það er ofbeldi í myndinni, en ekki svona ofbeldi sem við erum vön í kvikmynda-heiminum. Þetta er eitthvað raunverulegt ég endurtek. Algjör geðveiki þessi mynd. En burt sé frá því, þá er leikurinn og söguþráðurinn fáranlega flottur. Rétt leikara-val og leikararnir eru sett í rétt verk. Persónurnar eru mjög vel skrifaðar, sérstaklega þessir tveir unglingsdrengir sem eru að gera allan anskotan. Djúpir, ógeðfeldir og ekkert svakalega góðir við fólk. Stíllinn við myndina virkar þannig að þetta lítur út fyrir að vera raunveruleg en svo koma móment það sem þetta er ekkert svakalega raunverulegt. Unglingsstrákarnir horfa stundum í myndavélina og láta eins og þetta sé svona leikjaþáttur. Stundum spóla þeir til baka "kvikmynda sjálfa" ef þeir gera einnhverja vitleysu.
Tökurnar við myndina er mjög flottar. Stundum eru tökurnar 5 mínútur á lengd, bara í einni töku. Brellur, þótt að það sé ekki mikið, voru mjög flottar. Rosaleg mynd, mæli hreinlega með henni. Ekki mynd fyrir viðkvæma og ekki mynd fyrir stúlkur sem vilja öskra fyrir sætu strákana. Það eru bara einnhverjar myndir eins og One Missed Call eða Pulse. Semstagt eeeeeeeekki þessa.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn