Náðu í appið
Bönnuð innan 7 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Bedtime Stories 2008

Frumsýnd: 16. janúar 2009

Hvað ef sögurnar þínar myndu rætast ?

99 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 27% Critics
The Movies database einkunn 33
/100

Adam Sandler leikur hótelstarfsmann að nafni Skeeter Bronson sem finnst ekkert skemmtilegra en að segja ungum frændsystkinum sínum ævintýrasögur til að svæfa þau á kvöldin. Hann verður fyrir óvæntri lífsreynslu þegar kvöldsögurnar hans fara að verða að raunveruleika á undraverðan hátt. Sögurnar verða fáránlegri með hverju kvöldinu þegar Skeeter ákveður... Lesa meira

Adam Sandler leikur hótelstarfsmann að nafni Skeeter Bronson sem finnst ekkert skemmtilegra en að segja ungum frændsystkinum sínum ævintýrasögur til að svæfa þau á kvöldin. Hann verður fyrir óvæntri lífsreynslu þegar kvöldsögurnar hans fara að verða að raunveruleika á undraverðan hátt. Sögurnar verða fáránlegri með hverju kvöldinu þegar Skeeter ákveður að nýta sér þær til að betrumbæta líf fjölskyldu sinnar.... minna

Aðalleikarar

Happy Madison + Disney = Meh!
Bedtime Stories er steikt blanda af hugljúfu Disney-ævintýri og dæmigerðri Adam Sandler vitleysu. Tvær afar ólíkar gerðir bíómynda sem í rauninni ættu ekkert heima saman, og miðað við afrakstur þessarar myndar vona ég að aðstandendur læri á því að búa ekki til slíkan hrærigraut aftur.

Adam Sandler hefur átt sinn skammt af slæmum myndum. Meðan að þessi mynd er ekki beinlínis léleg þá er hún samt mestmegnis ófyndin og sjarmalaus, og þar sem ræman er augljóslega ætluð krökkum, þá fá Sandler og co. (þ.e.a.s félagar hans úr Happy Madison kompaníinu) tækifæri til að leyfa barnalega húmor sínum að njóta sín til fulls. Eflaust eiga yngri áhorfendur eftir að hafa gaman af þessari mynd, en fyrir okkur eldri hópana er þetta áhorf frekar vandræðalegt.

Ég skil ekki hvernig leikstjórinn Adam Shankman getur tekið svona stórt skref niður. Maðurinn leikstýrði auðvitað engum gullmolum hér áður (The Pacifier, Cheaper by the Dozen 2) en með Hairspray fór hann að sýna nýjar hliðar af fjölbreytileika. Sú mynd var allur pakkinn; Hún var skemmtileg, litrík, fyndin og vel flæðandi skemmtun frá A-Ö. Slíkt get ég ekki sagt um Bedtime Stories. Jú, myndin er reyndar fallega útlítandi og afar litrík, en lengra nær það ekki.

Mér finnst samt eins og einhvers staðar í öllu Sandler-kjaftæðinu sé falin hlý og skemmtileg bíómynd. Eins og ég tók fram þá virkar þessi mynd eins og tvær sögur í einni. Önnur er rusl, en hin er alls ekki svo slæm. Það eru senur sem sýna að myndin hafi ósvikinn áhuga á því að gera persónurnar viðkunnanlegar og þróunina sakleysislega krúttlega, en síðan birtist hvert Sandler-grínið á eftir öðru eins og hraðahindrun og skemmir fyrir þeim möguleika.

Það kemur heldur ekki á óvart að húmorinn skuli vera svona flatur. Russell Brand, sem átti nánast leiksigur sem breski kynlífsfíkillinn í hinni frábæru Forgetting Sarah Marshall, birtist hér í dæmigerðu aukahlutverki þar sem honum er ætlað að vera fyndinn, en er það ekki. Það er borðliggjandi staðreynd að það sem gerði hann svona fyndinn í áðurnefndri mynd var einmitt sorakjafturinn og ósmekklega hegðunin. Tveir hlutir sem augljóslega henta illa í barnamynd. Til hvers þá að hafa hann?! Hann á óneitanlega skárstu brandarana í myndinni, en ég tel þetta samt vera sóun á nettum grínista. Talandi um lélegan húmor, þá var naggrísinn alveg ferlega ofnotaður. Minnir nokkurn veginn á hummus-grínið í Zohan, nema bara einhæfara.

Gæðaleikarar á borð við Jonathan Pryce, Richard Griffiths og Guy Pearce fylla ágætlega upp í myndina með nærveru sinni, en þeir eru nánast allir hafðir að fíflum. Einhvern veginn efa ég að Pearce sérstaklega sé stoltur af því að láta hund slefa framan í sig á filmu, og hvað þá í Sandler-mynd!

Meðan ég horfði á Bedtime Stories áttaði ég mig á því hversu góð mynd The Princess Bride er, en þessar tvær myndir eru eitthvað (samt ekki mikið) svipaðar. Engu að síður, um leið og þú sem áhorfandi ert farinn að hugsa um betri myndir með sömu/svipaðri hugmynd, þá er auðséð að nýja eintakið er óeftirminnilegt sull sem mun safna að sér takmörkuðum aldurshópum.
Þetta er svosem þolanleg afþreying, og ef þið mynduð horfa á hana með litlum krakka/krökkum, þá mætti vel gera verra. Betra þetta heldur en flest allt annað í barnatímanum.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

09.01.2016

Slær í gegn með 0% í einkunn

Adam Sandler myndin Ridiculous 6, sem var gerð sérstaklega fyrir Netflix vídeóleiguna, og sem menn héldu á tímabili að hefði verið tekin af Netflix sökum þess hve léleg hún þætti, er vinsælasta frumsýningarmynd á leigunni...

22.06.2012

Fílgúdd fjör alla leið!

Söngleikir geta verið dauði og djöfull ef þú þolir ekki lögin eða sálarkætandi veisla ef örin bendir í hina áttina. Þá er þetta í rauninni bara orðið að barnastærðfræði, því ef bíómynd inniheldur söngatriði se...

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn