Náðu í appið
Öllum leyfð

Fantastic Mr. Fox 2009

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Based on the beloved book by Roald Dahl.

87 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 93% Critics
The Movies database einkunn 83
/100

Myndin segir sögu Mr. Fox og hvernig hann áreitir hænur, kalkúna og köngulær, og hvernig hann læðist um nótt við sína ævintýralegu iðju. En nú þarf hann að láta af þessari iðju og verða föðurlegur og ábyrgur. Hann er of uppreisnargjarn. Hann er of villtur. Hann skipuleggur eina árás í viðbót, á þrjá illkvittnustu bændurna, Boggis, Bunce og Bean.

Aðalleikarar

Dálítið súr, en samt fyrir alla
Það gleður mig alltaf þegar kvikmyndagerðarmenn virða góða bókahöfunda, frekar en að taka efnið þeirra í sundur, breyta því til og móta eitthvað sem þeir geta kallað sitt eigið. Roald Dahl var alveg einstakur penni. Ég dýrkaði margar barnabækur hans sem krakki og á menntaskólaárum las ég heilmikið af smásögum eftir hann. Hann er frábær, og það er notalegt að hugsa til þess að það eru til leikstjórar sem fara vel með verkin hans og "fatta" þau. Danny DeVito (Mathilda) gerir það, líka Henry Selick (James and the Giant Peach) og Tim Burton (Charlie and the Chocolate Factory). Núna bætist við Wes Anderson, sem fullkomlega virðir hráefnið en nær samt sem áður að brennimerkja söguna með sínum eigin stíl án þess að fara illa með innihaldið.

Ég get ekki alveg sagt að Fantastic Mr. Fox standi undir nafni. Hún er bráðskemmtileg, en það er eitthvað við það hversu sjálfumglöð hún er (eitthvað sem hefur líka hrjáð undanfarnar Anderson-myndir) sem kemur í veg fyrir það að hún sé alveg meiriháttar. Ég dýrka sjónræna stílinn hans Andersons, og hvernig hann stillir upp rammana og leikur sér með myndavélina. Meira að segja hittir (retró) tónlistarvalið nánast alltaf í mark. Mér þætti samt vænt um það ef hann myndi pumpa aðeins meira lífi í karakterana sína. Stundum eru senur annað hvort yfirdrifnar eða lágstemmdar af engri sérstakri ástæðu nema bara til að vera einkennilegar. Það virkaði fullkomlega í The Royal Tenenbaums, en stundum virðist eins og Anderson sé oft að reyna að gera þá mynd aftur og þ.a.l. fanga þann dularfulla sjarma sem hún hafði.

Fantastic Mr. Fox er ekta Wes Anderson-mynd (og þið munuð sjá oft minnst á nafnið hans í þessari umfjöllun), en maður finnur líka fyrir því að þetta er ekta Roald Dahl-saga, sem er gott. Húmor leikstjórans er viljandi þurr, sem gerir hann yfirleitt mjög góðan, og samskipti persónanna eru alveg jafn sérvitur og maður hefur séð frá honum áður. Það besta við myndina er að hún spilast út eins og mynd fyrir fullorðna, en samt er heildarsagan afar fjölskylduvæn. Hún virkar þess vegna ótrúlega vel á alla aldurshópa og fyrir mitt leyti er ég virkilega ánægður með það að Anderson skuli hafa forðast hefðbundnu teiknimyndaformin og ákveðið að vera ennþá meira öðruvísi. Stop-motion útlitið hefur líka sjaldan verið meðhöndlað með eins flottum stíl og hérna. Hver einasti rammi er skipulagður eins og Anderson væri að gera leikna bíómynd, og litadýrðin er stórkostleg. Maður fær líka lúmskt nostalgíukast við það að horfa á þetta, en samt virkar útlitið svo ferskt.

Fjörið versnar heldur ekki þegar maður hefur skemmtilega leikara á svæðinu (þannig séð). Rödd George Clooney smellpassar fyrir Mr. Fox, enda næstum því sami karakter og Danny Ocean, nema bara refur. Hann á þessa mynd algjörlega þótt allir aðrir séu ekkert verri í sjálfu sér. Húmorinn heldur líka öllu gangandi að mínu mati. Ég get ekki sagt að persónurnar hafi náð mikið til mín því yfirleitt skrifar Anderson mjög ýktar og tilgerðarlegar persónur (það kemur þessu ekkert við að flestar persónurnar hérna séu dýr), en þær voru flestar minnisstæðar þannig að sá galli ristir ekki djúpt.

Anderson á kannski margt ólært en hann er hiklaust einn athyglisverðasti leikstjórinn á markaðnum í dag og þess vegna er alltaf jafn forvitnilegt að fylgjast með því sem hann gerir. Fantastic Mr. Fox er líklega þarnæstbesta myndin hans (á eftir Rushmore og Tenenbaums). Hún er klárlega þess virði að mæla með og fær extra hrós frá mér fyrir að vera með svona svakalega sérstakt útlit.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn