Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Death at a Funeral 2010

Fannst ekki á veitum á Íslandi

This is one sad family.

92 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 44% Critics
The Movies database einkunn 51
/100

Aaron (Chris Rock) er góður maður á besta aldri, giftur Michelle (Regina Hall) og býr enn heima hjá föður sínum. Þegar sá gamli hrekkur upp af er það hlutverk Aarons að skipuleggja jarðarförina og flytja minningarorðin. Það er ákveðið að jarðarförin verði haldin í heimahúsum og þegar gestirnir fara að streyma að reynir Aaron eins og hann getur að... Lesa meira

Aaron (Chris Rock) er góður maður á besta aldri, giftur Michelle (Regina Hall) og býr enn heima hjá föður sínum. Þegar sá gamli hrekkur upp af er það hlutverk Aarons að skipuleggja jarðarförina og flytja minningarorðin. Það er ákveðið að jarðarförin verði haldin í heimahúsum og þegar gestirnir fara að streyma að reynir Aaron eins og hann getur að halda sér saman, þrátt fyrir að óþolandi frægi bróðir hans (Martin Lawrence) og gömlu vinir föðursins séu mættir á svæðið. En þetta verður erfiður dagur, því það er ekki nóg með það að útfararstofan ruglist á líkum, heldur tók einn af gestunum alltof stóran skammt af ofskynjunarlyfjum og getur ekki haldið sig í fötunum. Auk þess getur mamma Aarons ekki hætt að gráta, bróðir hans getur ekki hætt að reyna við unglingsstelpurnar og einhverra hluta vegna stendur lítill dvergur við líkkistuna með grunsamlegt glott á vör.... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Sama mynd, bara verri
Tilvist þessarar myndar fer rosalega í mig. Ég hef reyndar aldrei verið hrifinn af endurgerðum sem gera ekkert nema afrita frummyndirnar án þess að gera nokkurn skapaðan hlut við efniviðinn sem gæti kallast nýtt eða öðruvísi (það er ekki nógu góð afsökun að gera sama efnið tvisvar bara svo Bandaríski fjöldinn þurfi ekki að leita eins langt til að sjá það). Ég get *rétt svo* skilið það þegar amerískar myndir kópera myndir frá öðrum löndum án þess að leggja einhvern listrænan metnað í verkið, en að búa til glænýtt eintak af þriggja ára gömlum enskumælandi farsa sem er sama myndin skref fyrir skref nema bara með frægara fólki?? Þetta kalla ég einum of. Annaðhvort er um týpískt Hollywood hugmyndaleysi að ræða eða bara eitthvað flipp hjá framleiðendum. Ég efa samt að það sé hið síðarnefnda.

Ég gæti talið upp þúsundir gamanmynda sem mér finnst vera tilgangslausar, en ég er hræddur um að þessi sé með þeim allra tilgangslausustu sem ég hef á ævi minni séð. Áhorfandinn fær sama og ekkert út úr henni sem Frank Oz-myndin frá 2007 býður ekki upp á. Þessi mynd er m.a.s. skotin eftir sama handriti, sem gerir það að verkum að ég byrja að efast hvort að Neil LaBute hafi sjálfur verið meðvitaður um upprunalegu myndina. Brandararnir eru nákvæmlega eins uppbyggðir og þar af leiðandi er engin tilraun gerð til þess að gera efnið ferskara eða djarfara. Það eru einungis fáein tilfelli þar sem brandarar eru meira ýktir en þeir voru áður, með vott af kjánalegu slapstick-gríni. Annars, ef þú hefur séð hvoruga myndina, þá myndi ég segja þér að láta þessa alveg í friði. Jú jú, það eru fínir leikarar sumstaðar en margir þeirra gera voða lítið (eitthvað sem ég get reyndar líka sagt um hina myndina) og auk þess hafði Oz aðeins betri tök á kómískri tímasetningu heldur en LaBute gerir.

Fyrir utan James Marsden þá er enginn leikari sem reynir eitthvað á sig, því það eru allir svo uppteknir við það að endurtaka gömlu línurnar án þess að breyta þeim til eða gera þær fyndnari. Marsden fær líka LANGskemmtilegasta hlutverkið, og hann virðist vera eini maðurinn sem prufar að gera eitthvað annað við sinn karakter heldur en upprunalega myndin gerði. Alan Tudyk var kannski almennt betri, en Marsden er sprækari og einu skiptin sem ég hló voru útaf honum. Ég skil samt ekki hvað kom fyrir Neil LaBute! Maðurinn sýndi svo mikla hæfileika í byrjun ferilsins og nú er hann skyndilega orðinn að gaurnum sem sérhæfir sig í gagnslausum endurgerðum. Skil ekki hvernig hægt er að fara frá fínum, öðruvísi myndum eins og In the Company of Men og The Shape of Things (kíkið á hana, hún kemur á óvart) yfir í The Wicker Man og svo Death at a Funeral. Það verður einnig að teljast nokkuð lélegt að Funeral missir oftast marks í bröndurum á meðan Wicker Man var stöðugt hlægileg.

En ég verð að spyrja sjálfan mig einnar spurningar: Hefði ég hlegið meira hefði ég ekki vitað nákvæmlega hvernig atburðarásin ætti eftir að spilast út? Þ.e.a.s. hefði ég ekki verið búinn að sjá frummyndina. Ég held nefnilega ekki, því Martin Lawrence og sérstaklega Tracy Morgan fóru það mikið í taugarnar á mér að þeir útilokuðu hláturinn í kringum senurnar þeirra. Að minnsta kosti var Chris Rock óvenju lágstemmdur í þetta sinn, eða kannski var þetta bara leti. Ég er samt mest hissa út í Peter Dinklage. Hann endurtekur sama hlutverk nánast orðrétt og virðist ekki sýna nýjungum neinn áhuga, eða kannski var það leikstjórinn sem bannaði það.

Ef þú hefur séð gömlu myndina, þá er engin ástæða fyrir þig að eyða pening í þetta bull. Og jafnvel ef þú hefur ekki séð hana, þá myndi ég miklu frekar segja þér að tékka á henni þar sem hún lætur sömu brandarana virka mun betur. Báðar útgáfunar eru þó gott dæmi um hvað gerist þegar tveir mismunandi leikstjórar tækla sama handritið. Það er merkilegast hvað myndirnar eru einmitt líkar en skilja samt svo ólíkar tilfinningar eftir sig. Nýja útgáfan reynir ekki að apa eftir stílnum hans Oz neitt sérstaklega, heldur bara endurtekur það sem þegar var skrifað á blað, sem enn og aftur vekur upp þá spurningu hvort LaBute hafi annaðhvort bara vantað pening svona mikið, eða hann vissi ekki af hinni myndinni. Sjálfur var ég aldrei svo hrifinn af henni. Hún var fyndin en samt rosalega þunn og hefði mátt gefa persónum sínum meira að gera. Þessi útgáfa hefði getað lagfært þessa galla, en einhvern veginn skín það í gegn að aðstandendur voru alltof latir til að nenna að standa í slíkum breytingum.

4/10 - Ekki óáhorfanleg, heldur meira dauð, bæði í hugmyndaflugi og gríni.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn