Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Fright Night 2011

Aðgengilegt á Íslandi

Frumsýnd: 9. september 2011

.. og þú sem hélst að þínir nágrannar væru skrítnir

106 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 72% Critics
The Movies database einkunn 64
/100

Endurgerð myndar frá 1985. Charlie Brewster býr ásamt móður sinni í rólegu hverfi. Dag einn fá þau nýjan nágranna sem í fyrstu virðist bjóða af sér góðan þokka enda verður móðir Charlies strax hrifin af honum. Skólafélagi Charlies, Ed, er hins vegar ekki eins hrifinn og þegar fólk fer að hverfa sporlaust úr hverfinu sannfærist hann um að Jerry, en... Lesa meira

Endurgerð myndar frá 1985. Charlie Brewster býr ásamt móður sinni í rólegu hverfi. Dag einn fá þau nýjan nágranna sem í fyrstu virðist bjóða af sér góðan þokka enda verður móðir Charlies strax hrifin af honum. Skólafélagi Charlies, Ed, er hins vegar ekki eins hrifinn og þegar fólk fer að hverfa sporlaust úr hverfinu sannfærist hann um að Jerry, en svo heitir nýji nágranninn, sé vampíra. Þessu á Charlie hins vegar erfitt með að trúa þótt honum finnist sann-arlega eitthvað gruggugt við manninn og hegðun hans. Kvöld eitt sér Charlie hvar Jerry heldur á brott frá húsi sínu. Hann ákveður að grípa tækifærið og brjótast inn í hús hans til að fá það á hreint hvort vampírukenningin eigi við einhver rök að styðjast. Og þar með er martröðin hafin fyrir alvöru ...... minna

Aðalleikarar

Gamalt þýðir ekki endilega alltaf betra
Ég myndi líta á þessa nýju Fright Night-mynd hornauga ef í henni hefði verið gert það sama og í meirihluta amerískra endurgerða, að nota sama handrit og gera allt upp á nýtt með nýjum leikurum og nútímalegri brellum og tökustíl. Í rauninni bjóst ég ekki við neinu öðru þar sem myndin hefur að öllum líkindum farið í framleiðslu til að vera með í vampíruæðinu undanfarið og einnig til græða á nostalgíunni sem fylgir upprunalegu költ-myndinni frá 1985. Öll merki um ósvikinn metnað voru ekki sjáanleg fyrr en ég var byrjaður að horfa á nýju myndina og þá sá ég að hún hafði næstum því allt sem ég ætlast til af góðri endurgerð.

Sagan er mjög svipuð en býr til pláss fyrir nýjungar og að mínu mati lagfærir eitthvað af helstu göllunum sem sú gamla hafði. Einnig eru þemurnar nokkuð ólíkar og persónusköpun aðalkaraktersins betri. Nú er enginn varúlfur, engin gúmmíleðurblaka og í þokkabót er keyrslan á atburðarásinni á þægilegri hraða (allt "það-trúir-mér-enginn" plottið er heilmikið stytt niður, guði sé lof). Chris Sarandon, sem fór með hlutverk vampírunnar Jerry fyrir 26 árum síðan, var eftirminnilegur á sinn hátt en mér finnst Colin Farrell helmingi betri í sama hlutverki. Hann er svalari, óhugnanlegri og miklu meira heillandi á réttum stundum. Hann ber höfuðið hátt og pissar mörgum lítrum á kvennagullið Robert Pattinsson og karakterinn hans sem kallar sig vampíru. Christopher Mintz-Plasse, McLovin sjálfur (eða kannski Red Mist?), orðar það best í myndinni þegar hann líkir honum við hákarlinn úr Jaws. Gaman samt að sjá Sarandon þarna í gestahlutverki.

Handritshöfundurinn Marti Nixon er alveg á heimavelli hérna. Buffy-aðdáendur þekkja nafnið, og orð fá því ekki lýst hversu þægilegt það er að sjá aftur vampírur sem eru ekki með tilfinningalegar flækjur eða algjörir aumingjar. Leikstjórinn Craig Gillespie, þekktastur fyrir hina ljúfu Lars and the Real Girl, virðist hafa það í sér að vera hinn fínasti "genre" leikstjóri og sést það nánast að hann hafi skemmt sér alla leið með þennan subbulega hrærigraut. Hann tekur þétt handrit og meðhöndlar tónaskiptinguna afar vel. Myndin er fyndin á réttum stöðum, spennandi á réttum stöðum og misstígur sig sjaldan sem aldrei þegar senur taka sig alvarlega. Mér gengur illa með að muna hvenær ég sá seinast svona asskoti skemmtilega vampírumynd. Tónlistin og kvikmyndatakan hittir líka alveg í mark og gerir B-mynda stemmarann betri. Ég mana ykkur samt að hugsa ekki til Children of Men í einni ákveðinni bílasenu.

Farrell er samt ekki sá eini sem sigrar hliðstæðu sína. Að utanskildum Roddy McDowall (sem gjörsamlega ÁTTI frummyndina) eru allir nýju leikararnir betri en þeir sem léku í eldri útgáfunni. Anton Yelchin er traustur, David Tennant (sem tekur við af Peter Vincent-hlutverkinu, sem McDowell lék) stelur sínum senum og McLovin sjálfur fær loksins að sýna aðeins öðruvísi hlið að sér. Breska beibið Imogen Poots skilar sínu einnig ósköp vel og lætur mann alveg kaupa það að hún hrífist af nördanum Yelchin. Toni Collette er sú eina sem virðist ekki sýna rullunni sinni sama áhuga og aðrir, en það er alls ekki óskiljanlegt. Persóna hennar er á hliðarlínunni út alla myndina.

Það er tvennt sem handritið klikkar á sem hindrar hina skotheldu áttu sem myndin hefði getað hlotið í einkunn. Myndin teygir svolítið á trúverðugleikann þegar aðalkarakterinn (Yelchin) nær hetjulega að redda sér einkaviðtali við persónuna Peter Vincent, sem Tennant leikur. Orðið langsótt kemur upp í hugann þegar maður sér 16 ára dreng svona auðveldlega fanga athygli frægs skemmtikrafts. Hinn mínusinn kemur nákvæmlega þeirri persónu við þegar handritið vippar upp "baksögu" hennar og tengir býr til tengingu við annan karakter. Það er rétt svo minnst á þetta nálægt endanum en svo verður ekkert úr því. Handritshöfundurinn hefði átt að slútta þessu aukaplotti alveg. Það er eitthvað svo hallærislegt og vandræðalegt að sjá bara einhverjar leifar af því.

Ég get þó ekki annað en þakkað Colin Farrell fyrir að hafa minnt mig á það að vampírur geta verið töff. Ef ófrumlegur en blóðugur subbuskapur með léttum óhugnaði, miklu gríni og smá unglingarómantík er eitthvað sem þú telur hljóma vel, þá skaltu taka á móti þessari Fright Night-endurgerð með galopnum örmum. Hún er það sem hún vill vera og skammast sín ekkert fyrir það. Væri ekki fínt ef allar tilgangslausu endurgerðir yrðu gerðar af svona miklum áhuga?

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

12.09.2011

Sveppi flýgur á toppinn, lítil aðsókn vestanhafs

Það kemur fáum á óvart hvaða mynd hreppti efsta sætið í bíó um helgina en Algjör Sveppi og töfraskápurinn er ótvíræður sigurvegari og tók inn rúmlega 10 þúsund manna aðsókn allt í allt. Fimm aðrar myndir voru...

07.11.2012

Captain America leikari í Dino viðræðum

Dominic Cooper, sem margir þekkja úr myndunum Captain America og Mamma Mia, þar sem hann lék kærasta Amanda Seyfried, á nú í viðræðum um að taka að sér aðalhlutverk í tölvuleikjamyndinni Need For Speed, á móti Aaron Paul, sem þegar hefur samþyk...

06.10.2011

30 rip-off plaköt

Kvikmyndabransinn er oft kenndur fyrir að endurvinna hugmyndir, handrit og jafnvel heilu bíómyndirnar. Plakötin eru engin undantekning. Hér eru 30 plaköt sem eru, vægast sagt, svipuð. Betrayed vs Basic Instinct Madhouse vs Cheaper By The Dozen...

Svipaðar myndirSkrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn