Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Thing 2011

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 14. október 2011

It's not human. Yet.

103 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 34% Critics
The Movies database einkunn 49
/100

Þegar farartæki, sem virðist ættað frá annarri plánetu, brotlendir á Suðurheimskautssvæðinu slæst steingervafræðingurinn Kate Lloyd í för með norskum vísindamönnum sem ætla sér að komast til botns í málinu og stimpla sig inn í sögubækurnar. En ekki fer allt að óskum. Inni í geimskipinu finna þau lífveru sem virðist hafa drepist við brotlendinguna... Lesa meira

Þegar farartæki, sem virðist ættað frá annarri plánetu, brotlendir á Suðurheimskautssvæðinu slæst steingervafræðingurinn Kate Lloyd í för með norskum vísindamönnum sem ætla sér að komast til botns í málinu og stimpla sig inn í sögubækurnar. En ekki fer allt að óskum. Inni í geimskipinu finna þau lífveru sem virðist hafa drepist við brotlendinguna og þegar mikill snjóbylur skellur á ákveða þau að færa hræið í skjól og rannsaka það betur. En geimveran er alls ekki dauð. Þeir sem þekkja til ófreskjunnar úr fyrri myndinni vita að hún getur breytt útliti sínu að vild og tekið á sig form þess sem hún kemst í snertingu við. Það er því óhætt að segja að óttinn og ofsóknaræðið grípi vísindamennina sem nú geta engum treyst lengur. Saman þurfa þeir samt, ásamt Kate og flugmanninum Carter, að gera geimveruna óvíga áður en hún verður þeim öllum að bana.... minna

Aðalleikarar

Before "The Thing"
The Thing er mjög heimskulega titluð mynd enda er hún prequel 82myndarinnar og fjallar um atburðina sem skeðu á norsku stöðinni. Flestir aðdáendur gömlu myndarinnar ættu að kannast við hana. Myndin var mun betri en ég átti von á (allavega áður en ég las íslensku gagnrýnina) enda hefur myndin ekki fengið gott umtal hjá gagnrýnendum sem ég skil eki því myndin býr til svo góða stemningu og heldur mjög góðum dampi.

Myndin er ekki meistaraverk eins og Kurt Russell-myndin en hún er samt helvíti góð afþreying og mun betri en langflestar hryllingsmyndir sem til eru. Leikararnir eiga líka skilið hrós en mér fannst nánast eins og þessir óþekktu væru að standa sig betur. Til dæmis skildi Eric Christian Olsen (Community) ekkert eftir sig á meðan Norðmennirnir voru skemmtilegir og bara góðir leikarar. Mary Elizabeth-Winstead var samt gott val í aðalhlutverkið og frammistaða hennar er mjög jöfn og aldrei einhverjir heimskulegir brestir.

Það sem heldur þessari mynd líka fyrir ofan aðrar hryllingsmyndir er hversu skynsamar persónurnar eru. Þetta er eitt af mjög fáum skiptum sem ég hugsaði ekki með mér: Gerðu þetta! Ekki gera þetta. Hvað er hún búin að koma sér í... Í staðinn var allt mjög úthugsað handritslega séð og persónurnar fengu ekki allt í einu einhverja snilldarhugmynd sem lagar alla myndina þegar plottið hægir á sér heldur gera þau bara það sem alvöru manneskjur myndu gera. Myndin fær mikið hrós fyrir það.

Innilokundarkenndin og andrúmsloftið almennt (hver er hver) er vel meðhöndlað og það er aldrei dauðan punkt að finna. Það er alltaf einhver hræðsla í gangi, alltaf eitthvað leyndarmál sem bíður bara eftir að komast út og bregða manni. ÉG ELSKA samt hvað myndin er trú forveranum og sjá þetta allt falla saman (lík á sama stað og í fyrri myndinni, klakabaðið) var aðdáunarvert og ég skemmti mér næstum konunglega við að sjá myndirnar límast saman. Svo verður náttúrulega að minnast á endinn (í kreditslistanum) sem gerir lokatenginguna að 82 myndinni.

Góðir leikarar með úthugsuðu handriti og flottri leikstjórn sem leyfir stílnum frá gömlu myndinni að ráða ríkjum. Án efa ein besta afþreying ársins en alls ekki fyrir viðkvæma!

7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hvorki metnaðar- né glórulaus
Það er mjög auðvelt að gera þau mistök að halda að þetta sé endurgerð John Carpenter-myndarinnar frá 1982 (sem er sjálf endurgerð annarar myndar frá 1951) þegar hún er í rauninni forsaga sem er beintengd við hana. Reyndar eru aðstandendur lítið að hjálpa til með því að skíra nýju myndina nákvæmlega sama nafni. Kannski eru undirheiti orðin eitthvað úrelt. Ég get þó ekki ímyndað mér annað en að það myndist talsverður ruglingur í kringum þessa titla seinna meir, og eina leiðin til að greina myndirnar í sundur er að láta ártalið fylgja með í sviga. Í eftirfarandi texta mun ég að minnsta kosti hafa pínu gaman að því að nefna báðar myndirnar, og sést ágætlega hversu hallærislegt það er að vera með samnefndar systkinamyndir.

Orð fá því ekki lýst hvað það hefði verið mikill kellingaskapur að endurgera þá íkonísku mynd sem The Thing ('82) var og er. Hún er hin fullkomna endurgerð í sjálfu sér og þar af leiðandi glimrandi gott dæmi sem sýnir hvernig skal gera slíka rétt. The Thing ('11) fer hins vegar í allt aðra átt í stað þess að feta í sömu fótspor og The Thing ('82). Það sem hún gerir er langt frá því að vera kellingaskapur. Þvert á móti er hún skuggalega kjörkuð þar sem hún reynir að vera bein hliðstæða háttsettrar hryllingsmyndar, stækkar hana síðan og þræðir sig við söguna á mun betri hátt en margir þorðu að vona. Hún hefur sama andann, fullt af tilvísunum en samt rými til að bæta við nokkrum nýjungum þrátt fyrir að vera risastór eyðufylling á efninu sem sú gamla stillti upp.

Þetta á sér varla fordæmi! Við erum að tala um mynd sem frábærlega nær að límast við 29 ára gamla klassík eins og ekkert sé eðlilegra, og ef það væri ekki svona svakalegur munur á tæknibrellunum þá myndu saumarnir varla sjást. Leikstjórinn Matthijs van Heijningen Jr. (gaur, breyttu um nafn ef þú ætlar að "meika það" í Hollywood!) er sko ekkert að sluksa hérna. Það sést að hann sýnir The Thing ('82) svakalega mikla virðingu og reynir eins og hann mögulega getur að gera mynd sem á skilið að vera forverinn sem hörðustu aðdáendur eiga að taka í sátt. Ég ætla alls ekki að segja The Thing ('11) sé jafngóð og The Thing ('82), en mikið djöfull tekst henni að gera margt rétt.

Frá opnunarlógóinu í byrjuninni til stafaletursins og tónlistarnotkuninnar finnur maður fljótt fyrir því að myndin sækist eftir sama fíling, sem gerir það að verkum að þér líður eins og þú sért að horfa á eina risastóra skrímslamynd þegar þú horfir á báðar saman (og hvílíkt double-feature! Þ.e.a.s. ef þið endið á þeirri gömlu). Aðdáendur eiga sömuleiðis eftir að fagna þegar þeir sjá hversu vel tengingarnar þræðast við gömlu myndina og toppnum er eflaust náð í lokasenunni. Ef þú elskar The Thing ('82), þá get ég næstum því lofað þér að þú fáir smá gæsahúð. En ef við drögum nördafullnæginguna til hliðar þá má sjá að myndin er afar vel unnin, hröð og spennandi. Sem hryllingsmynd er hún óþæginleg á réttum stöðum og notar bregðusenur sparlega og aldrei til að pirra mann. Brellurnar eru einnig fjandi góðar þótt þessar gömlu praktísku séu miklu, miklu eftirminnilegri.

Handritið þjáist svolítið fyrir þau tilfelli þar sem myndin reynir aðeins of oft að endurskapa þær frábæru senur sem fyrri myndin hafði. Stundum finnst manni eins og sé bara verið að apa eftir sömu atburðarás eins og ekkert betra sé í boði. Aðallega er það miðkafli myndarinnar sem drattast og finnur maður aðeins of mikið fyrir déjà vu þarna, en fyrsti og seinasti kaflinn bjargar því fyrir horn með því að gefa okkur nokkrar skemmtilegar nýjungar. Mary Elizabeth-Winstead er síðan fín í klassíska Ripley-hlutverkinu (það er nú ekki hægt að hugsa um annað þegar saklaus gella berst skyndilega við ógeðslegar geimverur), en Kurt Russell er hún svo sannarlega ekki. Oftar en ekki var mér nokkuð sama um hana þó ég hafi fundið vel fyrir óttanum hennar. Aðdáendur verða líka ánægðir að sjá það að þeim er ekki hlíft undan ógeðinu frekar en fyrri daginn.

The Thing ('11) virðist samt ekki bara virka heldur standast blóðprufuna með stæl. Hún stendur þokkalega á eigin fótum, sem þýðir að nýju kynslóðirnar eiga að geta notið hennar án þess að þekkja hina myndina, en það gerir það bara þeim mun skemmtilegra að kynnast henni eftirá. Ég vil samt líta á þessa mynd sem skotheldan, en alls ekki gallalausan, forrétt fyrir eina af mínum uppáhalds hryllingsmyndum. Skellið þessum réttum saman og þá eru ansi skemmtilegir þrír klukkutímar í vændum.

Þeir sem eru ekki jafn kröfuharðir og ég geta búist við því að hækka þessa einkunn upp um einn heilann. Þeir sem eru ekkert skólaðir í The Thing munu ábyggilega ekki hoppa hæð sína jafnmikið og við.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn