Þegar Chris Hemsworth og Tessa Thomson gíra sig upp í að takast á við geimverur og önnur undur alheimsins í nýju Men in Black hliðarmyndinni sem væntanleg er á næsta ári, þá gætu þau þurft að fylgja fyrirmælum frá engum öðrum en Taken stjörnunni Liam Neeson.
Samkvæmt fregnum í Variety kvikmyndaritinu, þá á írski leikarinn nú í viðræðum um að taka að sér hlutverk í kvikmyndinni. Hlutverkið er hlutverk yfirmanns í bresku útibúi Men in Black, svipað hlutverki sem Rip Torn lék í fyrstu tveimur kvikmyndunum. Leikstjóri verður F. Gary Gray, sem leikstýrði The Fate of the Furious.
Lítið er enn vitað um söguna í myndinni, en samkvæmt vefsíðunni Omega Underground, þá fjallar myndin um það þegar persona Tessa Thompson, Em, reynir að sanna sig í starfi með því að ganga til liðs við fyrrnefnda Lundúnaskrifstofu, en þar er fyrir Chris Hemsworth, eða öllu heldur persónan sem hann leikur, leynifulltrúinn H.
Þau tvö flækjast svo inn í morðgátu, og í hönd fer mikið ferðalag um allt kosmosið. Talið er að tökur myndarinnar hefjist áður en langt um líður.
Hemsworth lét nokkur orð falla um myndina þegar hann var að kynna Avengers: Infinity War á dögunum, og sagði þar að hann vonaðist til að myndin yrði “söguleg og skemmtileg”, og einnig frábrugðin fyrri myndunum.
“Við erum að þróa handritið, og ætlum að hafa mikið af húmor og gríni eins og var í fyrri myndunum. Við þurfum að standast samanburð við fyrri myndirnar, og erum því að vinna á fullu að því að þetta verði eitthvað sögulegt og skemmtilegt. Þeir eru að reyna að breyta tökustöðum, þannig að þetta verði einstakt og öðruvísi en þær fyrri. Þannig að menn gætu verið að sjá ný lönd, mögulega. Einhverjar nýjar borgir sem ekki hafa verið sögusvið áður.”
Hemsworth virðist einnig hlakka mikið til að vinna með Tessa Thompson á ný, en þau unnu saman í Thor.
Thompson hefur einnig tjáð sig um myndina og segir að handritið sé nokkuð magnað. “Ég elska þessar myndir. Þær eldast vel. Ég horfði á þær allar nýlega,” sagði Thomspon.
Myndin kemur í bíó á Íslandi og annarsstaðar 14. Júní 2019.