Nýtt í bíó – Borg – McEnroe

Hin ævisögulega tennis-kvikmynd Borg – McEnroe verður frumsýnd á morgun föstudag í Háskólabíói.

Myndin segir okkur forsöguna að hinum magnaða úrslitaleik á tennismóti Wimbledon árið 1980 á milli Björns Borgs og Johns McEnroe. Um leið er skyggnst á bak við tjöldin í lífi beggja keppenda og mynd brugðið upp af því hvað þeir þurftu að leggja á sig til að ná á toppinn í tennisheiminum. Þeir þóttu mjög ólíkar manngerðir; Borg þessi rólega og yfirvegaða týpa en McEnroe var afar skapbráður og frægur fyrir útistöður sínar og háværar deilur við dómara.

Í tilkynningu frá Senu segir að þeir Shia LaBeouff og hinn íslenski Sverrir Guðnason þyki túlka þá McEnroe og Borg af snilld. Einnig leikur Stellan Skargard stóra rullu.

Leikstjóri er Janus Metz.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

-Þeir Björn Borg (f. 1956) og John McEnroe (f. 1959) höfðu fyrir úrslitaleikinn á Wimbledon 1980 mæst sjö sinnum
áður á tennismótum og var staðan í innbyrðis viðureignum þeirra 4-3 fyrirBorg . Alls mættust þeir síðan 22 sinnum á ferlinum ef öll mót eru talinmeð,  bæði opin og lokuð, svo og sýningarleikir, og unnu hvor um sig ellefu leiki. Vegna þess hversu ólíkar persónur þeir voru, Borg þessi rólega og yfirvegaða týpa á meðan McEnroe var afar skapbráður og frægur fyrir útistöður sínar og háværar deilur við dómara á leikjum sínum, var fljótlega byrjað að tala um að viðureignir þeirra væru eins og barátta á milli íss og elds.

-Þeir Sverrir Guðnason og Shia Labouf lögðu mikið á sig til að læra tennis fyrir gerð myndarinnar auk þess sem þeir þurftu að koma sér í fantaform. Þeir þykja báðir vinna stóra leiksigra í hlutverkum sínum og það kæmi ekki á óvart ef þeir yrðu víða tilnefndir til verðlauna fyrir túlkun sína þegar kvikmyndaárið 2017 verður gert upp.

-Í myndinni er einnig farið dálítið aftur í tímann og sá sem leikur Björn Borg ungan er í raun sonur hans, Leo Borg, en Björn var sjálfur ráðgefandi við gerð myndarinnar.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: