Pacific Rim 2 frestað um óákveðinn tíma

Fyrirtækið Legendary Pictures hefur frestað framhaldi Pacifim Rim um óákveðinn tíma. pacific-rim-hunnam-kikuchi

Leikstjórinn Guillermo del Toro samþykkti í júní í fyrra að gera framhaldsmynd og átti hún að koma út í apríl 2017. Í apríl síðastliðnum var ákveðið að seinka frumsýningunni um fjóra mánuði.

Tökur áttu að hefjast í nóvember en Legendary Pictures hætti við það og ákvað að fresta myndinni. Ekkert hefur komið fram um ástæðuna fyrir því.

Pacific Rim, sem kom út 2013, gerist á þriðja áratug þessarar aldar þar sem jarðarbúar nota risavaxin vélmenni, Jaegers, til að berjast við sjávarskrímslin Kaijus.

Myndin kostaði 190 milljónir dala en þénaði aðeins 101 milljón dala í miðasölunni í Bandaríkjunum. Utan Bandaríkjanna halaði hún inn 310 milljónir dala í miðasölunni, þar af 114 milljónir í Kína.