Pacific Rim 2 í tökur 2015 og Nr. 3 væntanleg

Framhaldið af geimskrímslatryllinum Pacific Rim verður frumsýnt 7. apríl árið 2017. Í nýlegu samtali við vefmiðilinn Collider segir leikstjórinn Guillermo del Toro að tökur myndarinnar muni hefjast í lok næsta árs, 2015, en í viðtalinu lét hann ekki þar við sitja heldur uppljóstraði að menn mættu búast við þriðju myndinni einnig.

pacific-banner-10-17

„Við erum með fyrsta uppkastið að myndinni [ Pacific Rim 2 ] í höndunum núna og við ætlum að eyða 4-5 mánuðum í handritið til viðbótar áður en við byrjum á myndinni, en undirbúningur hefst í ágúst-september á næsta ári og tökur hefjast í nóvember – desember. Stefnan sem við erum að fara í er mjög ólík fyrstu myndinni. Það eina sem ég get sagt er að sumar af eftirlætis persónunum munu snúa aftur, en aðrar ekki af því að við höfum ákveðið að hafa metnað að leiðarljósi og segja „reynum að gera þrjár myndir“ þannig að einhverjar persónanna birtist í lok myndar númer tvö, og haldi svo áfram í númer 3. Ég vona að fólki eigi eftir að líka við hana, en þetta verður ólíkt þeirri fyrstu.“