Rodriguez ræðir framhald á Sin City og Machete, og Spy Kids 4D

Kvikmyndaleikstjórinn Robert Rodriguez segir að von sé á framhaldi bæði á Sin City og Machete, en hann leikstýrði báðum þeim myndum. Rodriguez tilkynnti þetta á Comic-Con hátíðinni sem nú stendur yfir í San Diego í Bandaríkjunum.

Rodriguez segir að verið sé að leggja lokahönd á handritið að Sin City 2, og segir að hann vonist til að geta gert tvær myndir til viðbótar af Machete, sem frumsýnd var á síðasta ári. Hann segir að í amk. annarri framhaldsmyndinni af Machete þá muni hin sverðsveiflandi aðalhetja fara út í geim.

„Jafnvel þó að við náum ekki að gera þrjár, þá mun ég amk. gera trailer fyrir þrjár af því að hún er svo góð. Ég myndi meira að segja láta trailerinn af þrjú gerast á undan annarri myndinni,“ segir Rodriguez. „Machete fer út í geim! Þetta verður eins og Moonraker.“

Rodriguez, sem er 43 ára gamall, sagði frá þessu fyrir framan 6.500 aðdáendur sína í ráðstefnuhöllinni í San Diego, og hélt svo upp á allt saman í veislu á Hard Rock hótelinu hinum megin götunnar.

Leikstjórinn ræddi einnig nýjustu mynd sína, Spy Kids 4, en hún verður frumsýnd í fjórvídd, 4D, í næsta mánuði.

Rodriguez segir að myndin verði sýnd í hefðbundinni tvívídd, sem og í þrívídd og í fjórvídd, sem yrði lyktarvídd. Hann segir að fólk muni fá spjald í hendurnar þegar það kemur í bíó, með átta númerum á. „Þegar að það blikkar númeraljós á tjaldinu þá eiga áhorfendur að skafa af spjaldinu og lykta af því, og þá upplifa menn sömu lykt og persónurnar í myndinni finna,“ sagði Rodriguez.
„Það verður allskonar sætur ilmur og allskonar vond lykt – því það er smábarn í myndinni og hundur – þetta verður rosalega gaman.“