Nýjasta Tom Cruise myndin, Mission: Impossible – Dead Reckoning Part One, er stærsta glæfrabragð Cruise til þessa að mati gagnrýnanda breska blaðsins The Daily Telegraph sem gefur kvikmyndinni fimm stjörnur af fimm mögulegum.
Myndin kemur í bíó hér á Íslandi á miðvikudaginn.
Gagnrýnandinn, Robbie Collin, segir í dómi sínum að á því augnabliki eins og nú þar sem hægt er að breyta kvikmyndum í „pússað jukk“ með gervigreindarbúnaði, eins og hann orðar það, hefur Cruise farið í eins mann krossferð til spyrna fótum við þeirri þróun.
Ethan Hunt og félagar í Mission Impossible hópnum þurfa að finna lykilinn að stórhættulegu vopni sem ógnar öllu mannkyni áður en hann lendir í röngum höndum. Nú hefst hættulegur eltingarleikur sem teygir sig víða um lönd. Dularfullur en mjög valdamikill óvinur birtist og Ethan ...
Aðal þorparinn í myndinni er hvorki leyniþjónustumaður sem hefur villst af sporinu né hryðjuverkaþjóð, heldur fyrirbæri skapað af gervigreind og heitir Entity. Það gerir út út frá rússneskum felukafbáti og safnar til sín leyndarmálum allra leyniþjónusta í heimi.
Ómetanleg og ósæranleg
Búnaðurinn hefur þó eina manneskju á sínum snærum: fágaðan en stórhættulegan leigumorðingja sem þekktur er undir nafninu Gabriel, leikinn af Esai Morales. En meginóvinurinn, gervigreindin, er ósýnileg, ómetanleg og ósæranleg, og því einkar erfið viðfangs.
Nú er það verkefni Cruise, þ.e. ef hann tekur það að sér, að elta uppi aðal lykilinn að stórtölvunni þar sem gervigreindin starfar, og ráða niðurlögum hennar. En til að finna lykilinn þarf hetjan okkar að hlaupa, kýla, skjóta, keyra og stökkva í fallhlíf í Abu Dhabi, Róm, Feneyjum og í Austurlandahraðlestinni.
Eins og gagnrýnandinn bendir á þá virðist myndin vera tilraun Tom Cruise, rétt eins og í síðustu mynd hans, Top Gun: Maverick, til að bjarga Hollywood stórmyndunum með því að leita í ræturnar, á tímum þar sem listgreinin er komin í smá tilvistarvanda.
Gagnrýnandinn segir að myndin sé frábærlega útfærð og sígild í nálgun sinni.
Ýmis atriði í myndinni þykja kinka kolli til gamalla kvikmynda. Kattar og músar eltingarleikur á flugvelli minnir á stílbrögð Brian De Palma, leikstjóra Carlito´s Way, Dressed to Kill og fyrstu Mission: Impossbile myndarinnar.
Löggueltingarleikur í gegnum Rómarborg með Cruise handjárnaðan við meistaraþjófinn sem leikinn er af Hayley Atwell, líkist samleik þeirra Robert Donat og Madeleine Carroll í The 39 Steps eftir Alfred Hitchcock.
Orka á hreyfisviðinu
Um meðleikarana segir gagnrýnandinn að þeir fái allir nóg rými til að láta ljós sitt skína. Atwell sé frábær, jafnvel þó orkan milli hennar og Cruise sé eingöngu á hreyfisviðinu – dagar blossa og heitra tilfinninga milli Ethan Hunt og leikkvenna eins og Emmanuelle Béart og Thandie Newton eru nú á bak og burt.
Nýir leikarar eins og Shea Whigham og Pom Klementieff koma vel út og Simon Pegg kemur sterkur inn rétt einu sinni sem reddarinn sem þarf að aftengja sprengju með tveimur baðherbergisplokkurum.
Gagnrýnandinn lýkur grein sinni með þeim orðum að það sé nóg um að vera á tjaldinu, eða hvað? Lengd myndarinnar er næstum þrír tímar, eða 15 mínútum skemur, og söguþráðurinn er í raun frekar einfaldur, eða : Ná í lykil, opna hurð og bíða svo eftir mynd nr. 2 á næsta ári.
En skemmtigildið er ótvírætt. Myndin er eins og hraðlest á fullri ferð og það ískrar í öllum hjólum.