Stiklurnar sem þú sást ekki

Við hjá Kvikmyndir.is reynum okkar besta að framfleyta (hugsanlega) góðum væntanlegum kvikmyndum eins og við getum, en þá virka stiklurnar best því þær ná auðveldlega til okkar og skila best grunnhygmyndinni að þeirri kvikmynd sem hún er að reyna að selja.

En oft gleymum við pennarnir smærri kvikmyndunum eða látum eitthvað fram hjá okkur fara, en þessi færsla er til að bæta upp fyrir ýmsar nýlegar stiklur sem virðast alveg fjári góðar eða vekja upp mikinn áhuga. Hvort sem þessar stiklur ná ykkur eða ekki þá munu sumar þeirra án efa skapa umræðu, sem okkur líkar einnig hér á síðunni, kæru lesendur.

Perks of Being a Wallflower

Byggð á samnefndri og vinsælli bók frá 1999, sem hefur verið lýst sem Catcher in the Rye fyrir yngri kynslóðir nútímans. Þó myndin virðist heilmikið ‘hipsterfóður’ þá virkar hún satt að segja ansi kærleiksrík, hæfilega fyndin, og ekki sérstaklega sjálfhverf. Efnistök myndarinnar fjalla um ungan dreng sem þarf að kljást við sína fyrstu ást, sjálfsmorð besta vinar síns og eigin tilvistarbaráttu.

Bókin olli miklu fjaðrafoki í skólum á sínum tíma fyrir hvernig hún meðhöndlaði mörg eldheit umræðuefni á borð við samkynhneigð, lyfjanotkun, kynlíf, og sjálfsmorð.

 

Babymakers

Broken Lizards-teymið er mætt á ný og virðast annaðhvort hafa þroskast síðan síðast eða lært ýmislegt af Judd Apatow. En nýjasta myndin þeirra virkar ansi mikið eins og Knocked Up miðað við hvernig bæði kynin virðast fá jafn mikla athygli í stiklunni og barnavandi er meginkjarni sögunnar. Spurning hvernig ránið mun spilast út í myndinni, en þetta hljómar ekki eins og hin týpíska ránsmynd. Gott að fá teymið saman á ný.

 

The Imposter

Heimildarmyndir fá ekki nóg kredit meðal okkar kvikmyndaunnendanna, þrátt fyrir að við kunnum að meta þær ef efnistökin og framsetningin stendur verulega upp úr- en stiklan fyrir The Imposter lítur svo sannarlega öðruvísi út og tekst að vekja upp áhuga fyrir efninu. Myndin fylgir ótrúlegri atburðarrás þar sem franski glæpamaðurinn Bourdin sem tókst að blekkja yfirvöld til að halda að hann væri 16 ára gamall drengur sem hafði horfið sporlaust fyrir þremur árum.

 

Dark Blood

Loksins er hægt að sjá gæða myndefni úr síðustu kvikmyndinni sem leikarinn River Pheonix lék í fyrir andlát sitt. Síðan 1993 hefur myndin verið í heilmiklu vinnsluhelvíti þar sem andlát Pheonix varð til að ekki var hægt að klára myndina og fjölskylda hans hefur mótmælt harðlega gegn útgáfu hennar. En leikstjóri myndarinnar, George Sluzier, hefur fundið út leið til að ljúka myndinni og fjármagnar nú vinnslukostnaðinn í gegnum CineCrowd, en hann telur sig ekki eiga mikið eftir ólifað eftir hrakandi heilsu síðastliðin ár og langar að klára myndina í ljósi þess.

 

Branded

VARÚÐ! Þessi stikla á eftir að sitja verulega í ykkur og þið eigið án efa eftir að hugsa um efnistökin og skuggalegt útlit myndarinnar næstu daga, enda er myndin blákaldur og frekar trúverðugur vísindaskáldskapur. Þetta er hrollvekjandi hugmynd sem hefur vaknað mikið meðal fólks eftir hrunið þar sem stórfyrirtæki heimsins eru bókstaflega gerð að blóðsugum sem nærast á viðskiptum og vilja okkar neytendanna. Ég einfaldlega get ekki beðið eftir þessari ræmu.

 

The Watch

Áður þekkt sem Neighborhood Watch. Teymi af þekktum gamanleikurum fara með hlutverk nágrannavörslu sem sérhæfa sig í að verja hverfi sitt og jörðina alla gegn geimveruinnrás. Myndin er leikstýrð af Akiva Schaffer sem færði okkur síðast hina óvæntu Hot Rod. Cool beans? Cool beans.

ATH: Stiklan er b.i. 16 ára

Auka: Beyond the Black Rainbow

Þó þessi stikla sé ekki alveg beint nýleg, þá hefur hún svo sannarlega farið fram hjá mörgum. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki grænan grun um hvað myndin fjallar en dúndurflotta 70s sci-fi útlitið og þessi magnaða stikla færa hana beint á ‘verð-að-sjá’ listann minn. Virkilega myrkur vísindaskáldskapur hér á ferð.

Hvaða stiklur sáuð þið nýlega sem heilluðu ykkur upp úr skónum? Og hvaða mynd virðist sú áhugaverðasta hér fyrir ofan?