Styttist í mikilvægustu verðlaunin

kvikmyndaTilkynnt verður þann 30. ágúst nk.  hvaða fimm norrænu kvikmyndir eru tilnefndar til hinna eftirsóttu Norrænu kvikmyndaverðlauna. Allar myndirnar verða sýndar á norrænni kvikmyndaveislu í Háskólabíói 15. – 18. september.

Um er að ræða mikilvægustu verðlaun í norræna kvikmyndageiranum og hljóða þau upp á 350.000 danskar krónur sem skiptast jafnt á milli leikstjóra, handritshöfunda og framleiðanda verðlaunamyndarinnar. Til að hljóta tilnefningu verða myndir að eiga rætur í norrænni menningu, hafa mikið listrænt gildi, skara fram úr hvað varðar listrænan frumleika og samtvinna og efla hina margvíslegu þætti formsins svo úr verði sannfærandi og heilsteypt verk, eins og segir í tilkynningu frá Senu.

Verðlaunin, sem Fúsi eftir Dag Kára hreppti í fyrra, voru veitt í fyrsta sinn árið 2002 í tilefni af 50 ára afmæli Norðurlandaráðs. Þá komu þau í hlut finnska leikstjórans Kaurismaki fyrir kvikmyndina Maður án fortíðar.

Kvikmyndirnar fimm sem keppa til verðlauna, ein frá hverju landi, eru valdar af dómnefnd, en í henni sitja tveir fulltrúar frá hverju keppnislandi. Verðlaunahafar ársins fá verðlaunin afhent í Kaupmannahöfn 1. nóvember við hátíðlega athöfn Norðurlandaráðsþingsins.

Þær íslensku myndir sem tilnefndar hafa verið frá upphafi verðlaunanna eru: Hafið (2002), Dís & Gargangi snilld (2005), Blóðbönd & A Little Trip to Heaven (2006), Börn & Mýrin (2007), Brúðguminn (2008),
The Amazing Truth About Queen Raquela (2009), The Good Heart (2010), Brim (2011), Á annan veg (2012) og Djúpið (2013).

Við höfum svo sigrað tvö síðustu ár; fyrst árið 2014 með Hross í Oss og svo í fyrra með Fúsa.