Styttist í Northern Wave

Kvikmyndahátiðin Northern Wave verður haldin í 7. sinn í Grundarfirði í næstu viku, helgina 17.-19. október. Alls verða 13 íslenskar og 35 erlendar stuttmyndir sýndar á hátíðinni auk 12 íslenskra tónlistarmyndbanda.

,,Þar til í fyrra var hátíðin alltaf í byrjun mars en svo skyndilega fór Grundarfjörður að fyllast af túristum þegar að margir tugir, jafnvel hundruðir háhyrninga fóru að koma inn í fjörðinn yfir vetrartímann. Við þurftum þ.a.l. að færa hátíðina í október til þess að nóg væri af gistirými í bænum,“ segir Dögg Mósesdóttir stofnandi hátíðarinnar.

northernwave

Keppt er um verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina, besta íslenska tónlistarmyndbandið og bestu alþjóðlegu stuttmyndina. Einnig er keppt um besta fiskréttinn en efnt er til fiskiveislu á laugardagskvöldinu og þar keppast Grundfirðingar um atkvæði gesta um besta fiskréttinn.

,,Hátíðin leggur áherslu á að finna nýjar „raddir“ í kvikmyndagerð, kynslóð nýrra leikstjóra sem eru að fara nýjar leiðir með kvikmyndatungumálið,“  segir Dögg.

Isabelle Fauvel er heiðursgestur og situr í dómnefnd í ár en hún er útsendari fyrir Torino film lab og Jerusalem film lab og sér um að finna nýtt hæfileikafólk í stuttmyndageiranum.

Í ár verður lögð áhersla á að sýna það besta sem er að gerast í stuttmyndabransanum með fjölda verðlaunamynda. Í dómnefnd eru Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi og Isabelle Fauvel en áhorfendur kjósa í fyrsta sinn í ár um besta tónlistarmyndbandið.

Boggie trouble, Sesar A, Bellstop og hin goðsagnakennda Diablo quintet (með Einari Melax fyrrum Sykurmola sem forsprakka) spila á hátíðinni.

Hér má sjá þær myndir sem verða sýndar á hátíðinni.