Superman búningur Cage opinberaður í fyrsta skipti

Á tíunda áratug síðustu aldar var framleiðslufyrirtækið Warner Bros með nýja Superman kvikmynd í burðarliðnum, Superman Lives, sem Tim Burton átti að leikstýra og Nicolas Cage að leika aðalhlutverkið, Ofurmennið sjálft.

Árið 1996 kom leikstjórinn Kevin Smith með handrit að Superman Lives til Jon Peters og eftir að hafa endurskrifað handritið tvisver sinnum þá var útlit fyrir að myndin færi alla leið í framleiðslu. Smith stakk upp á Tim Burton sem leikstjóra, og Burton skrifaði undir samning þess efnis.

Warner Bros hafði ákveðið að frumsýningardagur yrði um sumarið árið 1998, og um leið átti að halda upp á 60 ára afmæli Superman sem teiknimyndahetju.

Einnig hafði Nicolas Cage, sem sjálfur er gríðarlegur unnandi ofurhetja, og hefur jafnvel skírt börnin sín eftir persónum í Superman blöðunum, skrifað undir samning um að leika í myndinni.

Superman var í tilvistarkreppu á þessum tíma, en myndin Superman IV: The Quest for Peace, frá árinu 1987, kolféll í miðasölunni, en Cage hafði trú á því að hann gæti endurvakið hetjuna til vegs of virðingar. Þar að auki taldi Peters að Cage gæti „sannfært áhorfendur um að hann [ Superman ] kæmi utan úr geimnum“, en Smith vildi hafa sterkan fókus á það atriði, í kjölfarið á gríðarlegum vinsældum Star Wars, sem fagnaði 20 ára afmæli á þessum tíma.

Warner Bros hafði eytt um 30 milljónum bandaríkjadala í undirbúning myndarinnar, en neyddust til að fresta henni af ýmsum ástæðum, og að lokum hætti Burton við að leikstýra, þar sem hann þurfti að snúa sér að mynd sinni Sleepy Hollow. Smátt og smátt varð ólíklegra og ólíklegra að kvikmyndin yrði nokkru sinni gerð, og að lokum sagði Cage sjálfur bless árið 2000.

Árið 2015 var svo gerð heimildarmyndin The Death of „Superman Lives“: What Happened? í leikstjórn Jon Schnepp.

En jólin koma snemma í ár fyrir aðdáendur Superman, því nú hefur búningurinn sem Cage átti að klæðast í myndinni, opinberlega verið dreginn út úr kjallaranum hjá Warner Bros: