Týnd kvikmyndatónlist flutt á Sinfóníutónleikum

Sinfóníuhljómsveit Íslands mun þann 11 . desember nk. flytja tónlist Jórunnar Viðar við íslenska tímamótaverkið Síðasti bærinn í dalnum, sem var fyrsta kvikmyndatónlist sem samin var á Íslandi við mynd í fullri lengd.

Jökull Torfason markaðsfulltrúi Sinfóníuhjómsveitarinnar segir í samtali við Kvikmyndir.is að Þórður Magnússon tónskáld hafi verið fenginn til að skrifa tónlistina upp á nýtt . „Nóturnar voru týndar, og Þórður hlustaði á kvikmyndina og skrifaði tónlistina upp á nýtt á nótur,“ segir Jökull.

Hann segir að kvikmyndin og tónlistin hafi verið saman á stálþræði, og vegna mikilla vinsælda myndarinnar á sínum tíma hafi stálþráðurinn oft slitnað, og tónlistin því smátt og smátt hætt að passa við myndina. Það sé mjög bagalegt enda er tónlist í kvikmyndum gjarnan hárnákvæmt tímasett til áhrifsauka. „Það var farin að líða næstum ein mínúta frá því að tröllin birtust í myndinni og þar til stefið fyrir þau byrjaði að hljóma.“

Jökull segir að tímasetningin núna sé skemmtileg því Jórunn Viðar og fullveldi Ísland séu jafnaldrar. Jórunn hefði orðið 100 ára 7. desember nk. og 100 ár eru síðan Ísland fékk fullveldi frá Dönum.

Að sögn Jökuls þá eru tónleikarnir samstarfsverkefni Kvikmyndasafns Íslands og Sinfóníuhljómsveitarinnar, en Kvikmyndasafnið hefur hreinsað myndina og fært á stafrænt form.

„Þetta hefur verið mikil vinna, bæði hreinsun kvikmyndarinnar og að skrifa upp tónlistina og laga að myndinni. Jórunn var alltaf miður sín yfir því að þetta skildi hafa farið svona, sérstaklega af því að hún eyddi miklum tíma í nákvæmar tímasetningar tónlistarinnar.“

Efniviður myndarinnar er eins og fram kemur á vef Sínfóníuhljómsveitarinnar, í anda gömlu þjóðsagnanna, sígilt ævintýri um baráttu góðs og ills. Í sveit einni hafa allir bændur flust á brott vegna ofsókna trölls og tröllskessu. Bóndi einn situr þó sem fastast með fjölskyldu sinni þar sem amman á bænum á töfrahring sem verndar íbúana frá öllu illu. Tröllin reyna að stela hringnum af henni og þá fer af stað atburðarás þar sem ýmsar vættir koma við sögu, meðal annars álfadrottning og dvergur sem getur gert sig ósýnilegan.

Jökull segir að Sinfóníuhljómsveitin haldi reglulega kvikmyndatónleika. „Við vorum með Amadeus í fyrra, og í apríl nk. verðum við með Star Wars tónleika. Núna er hinsvegar í fyrsta skipti sem við erum með íslenska kvikmynd á svona tónleikum.“