Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

Amadeus 1984

Fannst ekki á veitum á Íslandi

The Man... The Music... The Madness... The Murder... The Motion Picture..

160 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 89% Critics
The Movies database einkunn 87
/100
Vann átta Óskarsverðlaun, þar á meðal besta mynd, besta leikstjórn og besti leikur í aðalhlutverki.

Sagan af tónskáldinu Wolfgang Amadeus Mozart, sögð í endursögn keppinautar hans Antonio Salieri - sem í myndinni er læstur inni á geðsjúkrahúsi. Antonio Salieri telur að tónlist Mozarts sé himnesk. Hann óskar sér einskis heitar en að vera sjálfur jafn gott tónskáld og Mozart, þannig að hann geti lofað drottinn á sama hátt í gegnum tónlistina. En hann... Lesa meira

Sagan af tónskáldinu Wolfgang Amadeus Mozart, sögð í endursögn keppinautar hans Antonio Salieri - sem í myndinni er læstur inni á geðsjúkrahúsi. Antonio Salieri telur að tónlist Mozarts sé himnesk. Hann óskar sér einskis heitar en að vera sjálfur jafn gott tónskáld og Mozart, þannig að hann geti lofað drottinn á sama hátt í gegnum tónlistina. En hann á erfitt með að skilja afhverju Guð hefur gefið Mozart svo mikla hæfileika, þar sem hið unga tónskáld er partíljón mikið og ekki mjög fágað í framkomu. Öfund Salieris í garð Mozarts hefur snúið honum gegn Guði og hann hyggst leita hefnda. ... minna

Aðalleikarar

Frábær leikur og leikstjórn sem mynda frábæra mynd
Þessi gagnrýni inniheldur eitthvað af spoiler-um.


Samkvæmt því sem ég best veit, þá er Amadeus eina kvikmyndin (allavega sú eina þekkta) um tónskáldið Wolfgang Amadeus Mozart. Og miðað við hversu góð hún er, er ekki sérstakt að enginn þorir að gera aðra mynd um hann. Og það sérstaka við það er að Amadeus er ekki fullkomalega trú því sem gerðist í rauninni.

Sjálfur veit ég ekki nákvæmlega hvort Mozart hafi verið eins og hann er túlkaður í myndinni en það kom aldrei nein sönnun að annað tónskáld ,Antonio Salieri, reyndi að drepa hann, sem er aðalsöguþráður kvikmyndarinnar. Það skiptir mig samt litlu máli yfir hversu trú myndin er undrabarninu, því útkoman er ótrúleg og ógleymanleg. Ég sá ekki einn einasta galla við þessa mynd og kostirnir eru margir.

Framleiðslan á myndinni er fullkomin. Ekkert er sparað og myndin virkilega færir mann yfir á tímabilið sem myndin á að gerast (þ.e.a.s. síðari hluti 18. aldar). Hvort sem verið er að tala um byggingar, listræna stjórnun, búningar, make-up eða aukahlutir; framleiðslan hefur ekki elst neitt. Þetta fær sérstaklega að skína í óperu-atriðunum sem eru þónokkur. Útlitið í þeim atriðum í bland við tónlist eftir annað hvort Mozart eða Salieri eru æðisleg og missir aldrei dampinn.

Leikstjórn Milos Forman (sem hafði þegar komið með annað meistaraverk: One Flew Over The Cuckoo's Nest) er æðisleg líka. Hann nær að kreista það besta úr öllum leikurum myndarinnar, sama hversu smátt hlutverkið er og hann algjörlega eignar sér óperu-atriðin. Andrúmsloftið er alltaf gott, en það sem er besta við leikstjórn Forman er flæði myndarinnar, og er ég að tala um upprunalegu útgáfuna því ég hef ekki séð Director‘s Cut af myndinni. Hvert einasta atriði er hvorki of stutt né og langt og myndin virðist ekki vera tveir og hálfur tími.

Allar frammistöðurnar eru góðar en það er óþarfi að tala um neinar nema frammistöður F. Murray Abraham og Tom Hulce. Frammistöðurnar eru mjög ólíkar, Abraham er miklu meira falinn heldur en Hulce, enda er Abraham að leika mann sem felur hvernig hann er í rauninni og er næstum allan tímann að berjast við trúnna á Guð og sjálfum sér. Hann setur líka nýja dýpt í afbrýðisemi. Karakterinn hans, Salieri, er ekki afbrýðisamur yfir hæfileikum Mozart, heldur er hann afbrýðisamur yfir því að Mozart fékk af öllum mönnum hæfileikanna, sem hann kallar gjöf Guðs. Tom Hulce er æðislegur sem Mozart. Hann er orkuríkur, fyndinn og er mjög trúverðugur þegar hann er fullur. Báðar frammistöðurnar láta mann finna vel fyrir því sem báðir karakterarnir ganga í gegnum og þurfa að berjast við.

Ég þarf líka að hrósa þriðja hluta myndarinnar. Það er sárt að sjá hversu andlega og líkamlega brotinn Mozart er orðinn, og gerir nær ekkert annað en að drekka og semja. Atriðið þegar Mozart og Salieri eru heima hjá honum er ógleymanlegt í sambandi við tónlistina, frammistöðurnar og leikstjórn. Og þar sem ég er að kalla myndina fullkomna, og þá sértsaklega í sambandi við flæði, leikstjórn og frammistöður, fær myndin að sjálfsötðu fullt hús.

10/10

PS: Það var alls ekki að bögga mig Elizabeth Berridge var alltaf í nýþröngum fötum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þessi mynd er næstum þrír tímar en er gjörsamlega dáleyðandi allan tímann. Þetta er frásögn úr lífi Wolfgang Amadeus Mozart sagt frá sjónarhóli hans helsta óvinar og leynilegs aðdáanda Antonio Salieri. Það magnaðasta við myndina er tónlist Mozart sem fær að dynja á manni í gegnum alla myndina. Brúkaup Figarós, Don Giovanni og Töfraflautan eru óperurnar sem eru mest áberandi í myndinni. Persónur myndarinnar eru í miklu tilfinningaflóði allan tímann. Salieri sem tileinkaði líf sitt Guði og skirlífi gegn því að Guð gæfi honum hæfileika til að skapa tónlist er frá sér numinn yfir því að api eins og Mozart hafi fengið alla þessa hæfileika. Mozart sjálfur á í erfiðleikum með samband sitt við föður sinn. Hann lendir í vandræðum út af hegðun sinni fyrst og fremst, ekki síst þegar hann fer að drekka. Salieri, leikinn af F. Murreay Abraham, er samt stjarna myndarinnar og í raun aðalhlutverkið, enda fékk hann óskarsverðlaun fyrir vikið. Ég hef séð þessa mynd þrisvar, tvímælalaust ein besta mynd sem ég hef séð. Meistaraverk.

Myndin er með 8,4 á imdb og er þar á lista meðal bestu mynda allra tíma nr. 80. Hún var tilnefnd til 11 óskarsverðlauna og vann 8, þar með talið besta mynd, besti leikstjóri og besti leikari.

Þetta var director´s cut, sem er um 20 mín lengri. Það er áhugavert að hugsa til þess hvernig myndin hefði verið ef annar leikari hefði leikið Mozart. Meðal þeirra sem sóttu um voru: Mel Gibson, Mark Hamill, Tim Curry, Mick Jagger, Kenneth Branagh og Sam Waterson.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Kvikmyndin Amadeus kom út árið 1984 og hrifsaði til sín öllum helstu Óskarsverðlaunum t.d. besta mynd, besti leikstjóri- Milos Forman, besti aðalkarlleikari- F. Murray Abraham og besta tónlist enda er þessi mynd sannkallað meistaraverk. Þrátt fyrir öll þessi Óskarsveðlaun og tugi annarra viðuekenninga hefur þessi mynd svolítið gleymst í gegnum tíðina. Ég vil ekki meina að hún sé vanmetim, alls ekki, heldur er ekki oft minnst á hana þegar talið kemur að góðum kvikmyndum. Síðar kom út önnur útgáfa af þessari mynd þ.e. Director´s cut sem er um 20 mínútum lengri en upprunalega útgáfan. Þá mynd ætla eg að skrifa um.


Myndin segir frá kannski eins og nafnið bendir til frá ævi Wolfgang Amadeus Mozart, einu virtasta tónskáldi allra tíma. Söguna segir maður að nafni Antonio Salieri (F. Murray Abraham), en hann horfir til baka þegar hann var sjálfur tónskáld. Á þeim tíma þráði Antonio ekkert heitar en að semja undurfagra tónlist og biður hann til Guðs dag hvern um að veita honum hæfileikann til að verða gott tónskáld. Hann fær dag einn tækifæri til að sjá Mozart, sem hafði verið lofaður um allan heim, flytja eitt verka sinna og þar með byrjar myndin að rúlla.


Þá kemur Mozart til sögunnar. Við sjáum Mozart með augum Antonio’s þ.e. sem einstakling útvalinn af Guði til að semja tónlist og tala fyrir Guð í gegnum tónlistina. Antonio er mjög svekktur þegar hann sér Mozart í fyrsta sinn því honum finnst ömurlegt að Guð hafi valið svo óheflaðan einstakling sem var sífellt með læti og dónaskap til að vera sinn útvaldi tónsmiður. Til gamans má geta að nafnið Amadeus merkir elskaður af Guði.


Ég held að það þurfi ekkert að taka það fram en tónlistin í myndinni en alveg mögnuð enda leikur enginn vafi á því að maðurinn (Mozart) var snillingur. Tónlistin er notuð við hvert tækifæri og þessar mögnuðu sinfoníur, óperur og margt fleira er notað í gegnum alla myndina. Maður getur ekki annað en fyllst af hrifningu þegar maður heyrir tónlistina því hún er svo öflug og áhrifarík. Þar sem ég hef ekki hlustað mikið á klassíska tónlist þá get ég ekki annað sagt en að ég hafi fundið svona hámenntaðrar-menningartilfinningu þegar ég heyrði lögin, frekar skemmtilegt.


Myndin er frábærlega leikin og finnst mér þá standa upp úr Tom Hulce en hann leikur Mozart. Hann lifir sig inn í hlutverkið og þá finnst mér atriðin þegar hann er að stjórna óperunum alveg einstaklega vel útfærð hjá honum. Hreyfingarnar eru óaðfinnanlegar og það er engu líkara en að hann hafi sjálfur verið hljómsveitarstjóri. Tom æfði fjórar klukkustundir á dag á píanóið fyrir hlutverkið enda var það mikilvægur hlutur í lífi Mozarts. F. Murray Abraham sýnir líka frábæran leik. Þegar Mozart er að koma aftur og aftur með frábærar óperur verður Antonio afbrýðisamari með hverjum deginum sem líður og nær F. Murray honum fullkomnlega.


Það síðasta sem ég ætla að minnast á eru búningar og sviðsmynd. Myndin gerist seint á átjándu öld og fötin skrautleg á þessum tíma. Búningarnir eru alveg magnaðir og manni finnst að hvert einasta smáatriði sé útpælt og mjög líklega sérsaumað. Fötin ásamt sviðsmyndinni eru alveg einstaklega metnaðarfull og það eru engir viðvaningar á ferð enda fengu búningarnir Óskar.


Þessi mynd er meistaraverk, allt þetta sem ég nefndi fyrir ofan er svo óaðfinnanlegt að maður getur ekki annað en hrifist af þessari mynd og auðvitað ætlar maður að fara að skella einum Mozart disk í tækið og láta menninguna flæða í gegnum sig.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Nýstárleg sýn á líf Mozarts, frábær leikur bæði hjá Tom Hulce sem Mozart og hjá hjá F. Murray Abraham sem erkifjanda hans. Frábær mynd, óhugnaleg og heillandi. Tónlistin er að sjálfsögðu frábær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Amadeus er sennilega ein besta mynd kvikmyndasögunnar. Hún er um sjálfan Mozart en það er annar maður sem segir söguna bæði af sjálfum sér og Mozart þess vegna eru eiginlega tvær aðalpersónur. Þessi mynd minnti mig óneitanlega mikið á myndina Shine en hún er um píanóleikara sem varð geðveikur. Í þessari mynd er Mozart ekki alveg heill á geði hann hlær eins og asni í allar áttir. Í myndinni er líka mikið um nótnaskrif Mozarts og margar óperur eru einnig í henni. Milos Forman leikstýrir myndinni mjög vel og F.Murray Abraham fer á kostum. Ég mæli með þessari mynd fyrir þá sem kunna að meta klassískar og góðar myndir!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn