UPPFÆRT – Vinur breytist í skrímsli

Sjáðu fyrstu stikluna hér fyrir neðan:

Síðar í dag er von á fyrstu stiklu úr nýjustu Dwayne Johnson kvikmyndinni, Rampage, en þangað til að því kemur má njóta þess að horfa á kappann á fyrsta plakatinu úr myndinni sem birt var fyrr í dag.

Á plakatinu sjáum við Johnson og í baksýn er risastóra albínóa silfurbaks-górillan George.

Í myndinni leikur Johnson hlutverk Davis Okoye, sem er sérfræðingur í prímötum. Hann er ekki mannblendinn, en hefur myndað sérstakt vináttusamband við George, hina gáfuðu górillu, sem hann hefur fóstrað frá fæðingu.

En þegar tilraun fer úrskeiðis og apinn breytist í gríðarstórt skrímsli, eru góð ráð dýr. Ekki bætir úr skák þegar uppgötvast að til eru fleiri slík stökkbreytt skrímsli.  Þegar ófreskjurnar taka á rás og strauja yfir Norður Ameríku, með tilheyrandi eyðileggingu og skelfingu, þá fer Okoye ásamt erfðafræðingi í það verkefni að búa til mótefni gegn þessum hrikalegu skepnum. Markmiðið er að koma í veg fyrir alheimsfaraldur sem stefnt getur heimsbyggðinni í voða, en einnig að bjarga hinum kæra vini sínum George.

Leikstjóri er fyrrum samstarfsmaður Johnson úr Journey 2: The Mysterious Island og San Andreas, Brad Peyton. Aðrir sem koma við sögu í myndinni eru Naomie Harris (Moonlight), Joe Manganiello (True Blood), Malin Akerman (Billions), Marley Shelton (Solace), Jake Lacy (The Office), Breanne Hill (Incarnate), P.J. Byrne (Big Little Lies), Jack Quaid (Vinyl), Jeffrey Dean Morgan (The Walking Dead) og Matt Gerald (Daredevil).

Stefnt er að frumsýningu 20. apríl á næsta ári, 2018.

Kíktu á plakatið hér fyrir neðan. Þar fyrir neðan má sjá mynd úr upprunalega tölvuleiknum sem myndin er byggð á: