Willis bombar Japani

Hasarleikarinn Bruce Willis hefur átt nokkuð misjöfnu gengi að fagna í bíóhúsum síðustu misseri, og sumar mynda hans hafa jafnvel ekki ratað alla leið þangað, heldur farið beint á DVD og/eða VOD.

Síðasta mynd sem var með honum í bíó var Death Wish en eins og segir á Movieweb átti sú mynd að marka endurkomu leikarans á stóra sviðið.

Nú er ný mynd á leiðinni frá kappanum, þar sem hann er kominn í flugorrustu í Seinni heimsstyrjöldinni, Air Strike, en myndin er byggð á sönnum atburðum, og segir frá flugbardaga við Japani.

Það er ánægjulegt að taka það fram hér að myndin mun rata alla leið í bíóhús í Bandaríkjunum, nánar tiltekið þann 26. október nk.,  og samtímis á VOD.

Aðrir helstu leikarar eru Óskarsverðlaunahafinn Adrien Brody, sem einnig hefur verið tíður gestur í myndum sem fara beint á VOD, og Ye Liu.

Í söguþræði myndarinnar segir að þar sé sagt frá sögulegu hugrekki kínverskra borgara í Seinni heimsstyrjöldinni. Bruce Willis leikur liðþjálfa sem þjálfar kínverska flugmenn til að berjast við Japani.  Einn flugmannanna býðst til að fljúga sprengjuflugvél sem gæti stöðvað árásir Japana.  Á sama tíma þarf hópur njósnara og flóttamanna að fara með dulrita yfir stríðshrjáðar sveitir.

Elsta dóttir Willis, Rumer Willis, leikur með föður sínum í kvikmyndinni, en þetta er fyrsta alvöru hlutverk hennar í mynd með pabba sínum. Hún hefur áður leikið í myndum eins og The House Bunny og Sorority Row. Þá var tilkynnt í síðustu viku að hún myndi leika í nýjustu kvikmynd Quentin Tarantino,  Once Upon a Time in Hollywood, og fer þar með hlutverk leikkonunnar Joanna Pettet.

Air Strike var tekin upp í þrívídd upphaflega, árið 2015, en hún verður þó ekki sýnd í þrívídd í bíó.

Óvíst er afhverju það hefur tekið þrjú ár að klára myndina. Eitt er víst, að það er enginn skortur á hasar og skotbardögum.

Kíktu á fyrstu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: