Wreck-It Ralph slær í gegn

Disney teiknimyndin Wreck-It Ralph, sem var frumsýnd bæði hér á Íslandi og í Bandaríkjunum á föstudag var vinsælasta myndin í bíó í Bandaríkjunum á föstudag, og menn spá því að hún verði langaðsóknarmesta myndin í Bandaríkjunum yfir helgina með áætlaðar 50,2 milljónir Bandaríkjadala í tekjur. Myndin þénaði 13,4 milljónir dala á föstudaginn, en það er meira en Argo, mynd sem Ben Affleck leikstýrir, þénaði alla síðustu helgi, eða 12 milljónir dala, sem skilaði henni samt á topp aðsóknarlistans þá helgina.

Mynd Robert Zemeckis, Flight, með Denzel Washington í aðalhlutverki, var önnur vinsælasta myndin á föstudaginn í Bandaríkjunum og þénaði 8 milljónir dala, og spár gera ráð fyrir því að myndin þéni 23,6 milljónir dala yfir helgina. Í þriðja sæti á föstudaginn var mynd Wu Tang Clan rapparans og nú kvikmynaleikstjórans RZA The Man With The Iron Fists, en Argo, var á hælunum á henni í fjórða sætinu.

Cloud Atlas, ný mynd Wachowski systkina með Tom Hanks og Helle Berry í aðalhlutverkum, sem margir vonuðu að myndi slá í gegn í miðasölunni um síðustu helgi, olli aftur vonbrigðum og lenti neðar en Taken 2, sem hefur verið í sýningum í margar vikur.