Twilight tryllir Bandaríkjamenn

The Twilight Saga Breaking Dawn Part 2 var gríðarlega vel sótt í Bandaríkjunum um helgina og þénaði samkvæmt bráðabirgðatölum 141,3 milljónir Bandaríkjadala, sem dugði þó ekki til að slá út aðsókn á aðrar eldri myndir í seríunni. Skyfall, nýja James Bond myndin, átti líka góða helgi og Lincoln, nýja Steven Spielberg myndin með Daniel Day-Lewis í aðalhlutverkinu, sömuleiðis, og gekk enn betur en menn spáðu.

Myndirnar á topp 12 listanum þénuðu samanlagt 237 milljónir dala sem þýðir að nýafstaðin frumsýningarhelgi er sú sjötta tekjuhæsta allra tíma í Bandaríkjunum.

Árangur The Twilight Saga: Breaking Dawn Part 2 er áttundi besti árangur fyrir mynd á frumsýningardegi allra tíma, og fjórða tekjuhæsta mynd á frumsýningarhelgi á þessu ári, á eftir The Avengers, The Dark Knight Rises og The Hunger Games.

Sé miðað við aðrar Twilight myndir þá er Breaking Dawn 2 aðeins aðsóknarmeiri en Breaking Dawn Part 1, sem var með 138,1 milljón dala í aðgangseyri á frumsýningarhelgi, en aðeins minni en New Moon, sem er sú mynd sem var vinsælust á frumsýningarhelgi, og þénaði 142,8 milljónir dala. Þetta er þar með í fyrsta skipti í sögunni sem þrjár myndir úr sama kvikmyndabálkinum þéna meira en 130 milljónir dala á frumsýningarhelgi.

Strákar fleiri nú

Það er áhugavert að rýna í kynjasamsetningu bíógesta á Twilight, en 79% voru kvenkyns, en 21% karlkyns, sem er reyndar hæsta hlutfall karla á Twilight frumsýningarhelgi frá upphafi.

Skoðið stikluna hér að neðan:

Skyfall stefnir í nýtt met

Af öðrum myndum þá þénaði Skyfall 41,5 milljónir dala á sinni annarri viku á lista, sem er harla gott, en myndin hefur þénað 161,3 milljónir dala á 10 daga tímabili í Bandaríkjunum. Talið er að á miðvikudag muni myndin fara fram úr aðsóknarmestu Bond mynd til þessa, Quantum of Solace, og verða aðsóknarmesta Bond mynd allra tíma í Bandaríkjunum.

Lincoln var um helgina sýnd í 1.775 bíósölum og þénaði 21 milljón Bandaríkjadala. Það er besta frumsýningarhelgi ævisögulegrar myndar um forseta Bandaríkjanna, og slær út W eftir Oliver Stone, en hún þénaði 10,5 milljónir dala á fyrstu helgi sinni í bíó.

Teiknimyndin Wreck-It Ralph er fjórða aðsóknarmesta myndin í Bandaríkjunum og þénaði 18,3 milljónir dala um helgina, og er komin upp í 121,5 milljónir alls.

Flight, mynd þar sem Denzel Washington leikur drykkfeldan flugmann, þénaði 8,6 milljónir dala, sem er 42% minna en um síðustu helgi.

Silver Linings Playbook, sem leikstýrt er af leikstjóra The Fighter, David O. Russell, var sýnd á 16 stöðum, og þénaði 458 þúsund dali. Myndin mun fara í meiri drefingu næsta miðvikudag, eða í 420 bíóhús.

Sjáið stikluna úr Silver Linings Playbook: