Aniston og Witherspoon saman á ný í sjónvarpsþáttaröð

Friends stjarnan Jennifer Aniston og Legally Blonde og Walk the Line leikkonan Reese Witherspoon ætla að leiða saman hesta sína í nýrri sjónvarpsþáttaröð sem mun gerast í morgunþætti sjónvarpsstöðvar í New York.

Handritshöfundur er Jay Carson, framleiðandi House of Cards sjónvarpsþáttanna vinsælu.

Leikkonurnar eru báðar í framleiðsluteyminu, en Steve Kloves er aðalframleiðandi.

Aniston og Witherspoon léku síðast saman þegar Witherspoon lék gestahlutverk í Friends, sem systir Aniston.

Witherspoon lék nýverið í prýðilegri þáttaröð frá HBO, Big Little Lies, og var tilnefnd til Emmy verðlauna fyrir frammistöðu sína.

Aniston er nú að snúa aftur á sjónvarpsskjáinn í fyrsta skipti síðan Friends þættirnir luku göngu sinni árið 2004.

Aniston lýsti yfir áhuga á að snúa aftur í sjónvarpið í samtali við kvikmyndaritið Variety í janúar sl. „Ég hef hugsað mikið um það,“ sagði hún. „Þar er nóg að gera. Þar eru gæðin. Á þessum tímapunkti á ferli mínum, þá vil ég vera hluti af frábærum sögum, spennandi persónum, og einnig að gera skemmtilega hluti.“

Hjá Witherspoon eru væntanlegar Disney kvikmyndin A Wrinkle in Time eftir Ava DuVernay, og rómantíska gamanmyndin Home Again, sem kemur í bíó í september. Aniston leikur í unglingagrínmyndinni Dumplin, og sást nýlega í dramanu The Yellow Birds sem frumsýnd var á Sundance, og svo grínmyndinni Office Christmas Party.