Walt Disney Studios hafa birt fyrstu opinberu stikluna fyrir kvikmyndina Jungle Cruise, en hún er byggð á þekktu leiktæki úr skemmtigörðum Disney.
Eins og hægt er að ímynda sér fyrirfram þá er þetta mynd sem er sneisafull af ævintýrum, og gerist í Amazon frumskóginum. Með aðalhlutverk í myndinni fer enginn annar en vinsælasti kvikmyndaleikari í heimi, Dwayne Johnson, en hann heldur um stjórntaumana á bátskrifli sem siglir niður fljót í skóginum.
Með honum á skipinu er engin önnur en A Quiet Place leikkonan Emily Blunt, sem leikur landkönnuð, í ætt við Indiana Jones, sem leitar að fornum grip djúpt í iðrum skógarins, sem á að hafa lækningamátt. Einnig eru með í för þau The Girl on the Train leikarinn Edgar Ramirez, Jack Whitehall úr Hundur hennar hátignar, Jesse Plemons, sem lék lögguna afskiptu í Game Night, og Paul Giamatti, úr Sideways.
Jaume Collet-Serra (Non-Stop, The Shallows) leikstýrir eftir handriti J.D. Payne, Patrick McKay og Michael Green.
Jungle Cruise er nýjasta myndin í röð mynda frá Disney afþreyingarrisanum, sem það gerir eftir leiktækjum í görðum sínum, en aðrar myndir í sama flokki eru The Country Bears, The Haunted Mansion, Mission to Mars, Tomorrowland og sú vinsælasta af þeim öllum; Pirates of the Caribbean.
Kvikmyndin kemur í bíó hér á Íslandi, og í heimalandinu Bandaríkjunum, 24. júlí 2020.
Sjáðu stikluna og plakatið hér fyrir neðan: