Cage í nýrri hrollvekju

Óskarsverðlaunahafinn og Face Off leikarinn Nicolas Cage hefur verið ráðinn í hlutverk í nýrri hrollvekju; Wally´s Wonderland.

Con Air leikarinn mun leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni, sem fjallar um húsvörð sem neyðist til að eyða nóttinni í undarlegum skemmtigarði þar sem hann þarf að upplifa sannkallaða martröð.

Þegar brúður og vélmenni vakna til lífsins, þá þarf húsvörðurinn að berjast við hvert skrímslið á fætur öðru, til að ná að lifa nóttina af.

Tökur á myndinni hefjast í janúar nk. og er leikstýrt af Kevin Lewis.

Lewis, sem hefur áður leikstýrt The Drop, segir að hinn 55 ára gamli Cage hafi verið eini leikarinn sem hann gat ímyndað sér í hlutverkið. Nú hefur honum orðið að ósk sinni.

„Fyrir mér þá var einn og aðeins einn leikari sem kom til greina, og sá maður er Nic Cage. Ég er himinlifandi að fá að vinna með honum og get varla beðið eftir að sjá hann takast á við Wally og hina geðsjúklingana. Fyrir mér er þessi mynd eins og sambland af Pale Rider og Killer Klowns from Outer Space.“