Eftirvæntingin hjálpar báðum myndum

Stórmyndirnar tvær sem komu nýjar í bíó í vikunni, Barbie og Oppenheimer, sem gárungarnir kalla Barbenheimer, og verða sýndar á sérstökum sýningum báðar í röð, bæði hér á Íslandi og í Bandaríkjunum, hafa vakið mikla eftirvæntingu þó mjög ólíkar séu. Umfjöllunarefnið er enda vægast sagt mjög ólíkt.

Oppenheimer (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8.4
Rotten tomatoes einkunn 93%

Sagan af bandaríska vísindamanninum J. Robert Oppenheimer og þætti hans í þróun kjarnorkusprengjunnar....

Besta mynd, besta tónlist, besti aðalleikari og besti aukaleikari (Downey Jr.) á Golden Globes. Tilnefnd til þrettán Óskarsverðlauna

Barbie (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.9
Rotten tomatoes einkunn 88%

Barbie og Ken njóta lífsins í Barbie landi, hinum litríka og fullkomna heimi. En þegar þau fá tækifæri til að fara yfir í hina raunverulegu veröld uppgötva þau fljótt bæði gleðina og hætturnar sem felast í því að búa á meðal manna. ...

Tvenn Golden Globes verðlaun, fyrir mesta árangur í miðasölu og fyrir besta lag: What Was I Made For? eftir Billie Eilish and Finneas. Tilnefnd til átta Óskarsverðlauna.

Samkvæmt bandaríska dagblaðinu The New York Times er búist við að Barbie, sem byggð er á samnefndri dúkku og ævintýrum hennar, muni afla 100 milljóna Bandaríkjadala í tekjur yfir frumsýningarhelgina í Bandaríkjunum en Oppenheimer muni taka inn helmingi minna. Oppenheimer fjallar um skapara kjarnorkusprengjunnar.

Um 40 þúsund miðar hafa nú þegar selst í forsölu í Bandaríkjunum á sýningar á báðum myndum saman.

Eins og New York Times segir í umfjöllun sinni þá er langt síðan jafn mikill spenningur hefur gripið um sig í Hollywood. Talið er að í sameiningu gætu myndirnar dregið að sér stærsta hóp bíógesta í bandarískum bíóhúsum í fjögur ár, tölur sem ekki hafa sést síðan fyrir faraldur, eins og New York Times segir. „Barbie og Oppenheimer eru í raun hinir fullkomu vina-óvinir í miðasölunni um helgina,“ segir Dave Karger hjá Turner Classic Movies. „Þær eru samkeppnisaðilar, en höfða til mjög ólíkra hópa. Spenningurinn fyrir Barbenheimer virðist vera að hjálpa báðum myndum.“

Hin sykurhúðaða Barbie, í leikstjórn Greta Gerwig, sem kostaði 145 milljónir dala í framleiðslu, fyrir utan markaðskostnað, gæti eins og fyrr sagði halað inn 100 milljónir dala á frumsýningarhelginni í Bandaríkjunum og Kanada. Mynd Christopher Nolan, Oppenheimer, sem kostaði 100 milljónir dala fyrir utan markaðskostnað, gæti tekið inn 50 milljónir dala yfir helgina á heimamarkaði. 

Tala niður væntingar

Warner Bros., framleiðandi Barbie, sem hefur selt miða fyrir 30 milljónir dala í forsölu, sagðist búast við 75 milljóna dala sölu um helgina, (framleiðslufyrirtækin gera hvað þau geta til að tala niður væntingar).  Myndin verður sýnd á 4.200 kvikmyndatjöldum í Norður Ameríku.

Framleiðslufyrirtæki Oppenheimer, Universal, mun frumsýna myndina á 3.600 bíótjöldum um helgina.

Barbie er tveggja tíma löng en Oppenheimer er rúmlega þrír tímar, sem þýðir að ekki er hægt að hafa eins margar sýningar á dag á þeirri mynd. Oppenheimer getur þó huggað sig við að geta verið sýnd á flestum risatjöldum Bandaríkjanna, sem þýðir að hægt er að rukka allt að 12 dollurum meira inn á myndina.

Eins og New York Times segir þarf Hollywood á vinsælum myndum að halda þessi misserin. Þetta er árið þar sem gestum átti að fjölga aftur eftir faraldurinn, þar sem mörg bíóhús lokuðu mánuðum saman á meðan streymisveitum óx fiskur um hrygg.

En miðasala í bíó í Bandaríkjunum og Kanada á þessu ári ( um 5 milljarðar dala ) hefur minnkað um 20% frá sama tímabili árið 2019, samkvæmt Comscore, sem tekur saman gögn um miðasölu.

Ljós í myrkrinu

Ljósið í myrkrinu er velgengni Spider-Man: Across the Spider-Verse og hinnar ofbeldisfullu John Wick: Chapter 4.  Aðsókn á framhaldsmyndirnar Indiana Jones and the Dial of Destiny, Ant-Man and the Wasp: Quantumania, Shazam! Fury of the Gods og Fast X hafa valdið vonbrigðum, samkvæmt The New York Times. Nýja Mission: Impossible myndin sem kom í bíó í síðustu viku fékk góða aðsókn en samt minni en Hollywood hafði vonast eftir.

Svo virðist sem bíógestir séu eitthvað að þreytast á endalausum framhaldsmyndum.

Þetta er fyrsta alvöru bíómyndin um Barbie. Oppenheimer er byggð á ævisögunni American Prometheus frá árinu 2005 eftir Kai Bird og Martin J. Sherwin. „Bæði framleiðslufyrirtækin fóru alla leið og gerðu frumlegar myndir, eftir virta leikstjóra sem vilja víkka út formið,“ segir Paul Dergarabedian, greinandi hjá Comscore, í grein The New York Times. „Þarna er verið að taka áhættu, öfugt við það sem oft gerist og gengur á sumrin, þar sem gjarnan er veðjað á eitthvað öruggt sem virkar pottþétt í miðasölunni.“

Barbie státar af stórstjörnunum Margot Robbie og Ryan Gosling en Oppenheimer er með hinn minna þekkta Cillian Murphy í titilhlutverkinu. Markhópur Barbie er konur en Oppenheimer er sagður höfða meira til karlmanna. Önnur myndin fjallar um það sem kvikmyndanördar þola ekki við Hollywood: Sögu byggða á leikföngum. Hin var skrifuð og leikstýrt af einum alvarlegasta bíónerði í Hollywood, eins og NYT segir.

Þó það sé sjaldgæft að myndir eins og þessar tvær mætist í miðasölunni og gangi báðum vel, þá er það ekki án fordæma. Í júlí 2008 fór Batmanmynd Christopher Nolan, The Dark Knight í samkeppni við hina björtu og glaðlegu Mamma Mia! The Dark Knight sigraði kapphlaupið og fór á toppinn en báðar myndir slógu í gegn.