Eitruð og meinfyndin andhetja

Í stuttu máli er „Venom“ vel heppnað ofurhetjufrávik sem tekur sig mátulega hátíðlega.

Venom er helst þekktur sem erfiður andstæðingur Köngulóarmannsins og fyrst kom hann fyrir sjónir almennings í teiknimyndablaði árið 1984. Fyrir marga var hann eftirminnilegastur í teiknimyndaseríunni sem framleidd var á árunum 1994-1998 og þegar „Spider-Man“ (2002) kom Lóa í hæstu hæðir í kvikmyndaheiminum var þessa illmennis beðið með óþreyju. Hann kom að lokum fram í „Spider-Man 3“ (2007) en myndin var ansi slöpp og Venom var bara einn af þremur vörgum sem Lói þurfti að fást við og vonbrigðin voru þónokkur.

Köngulóarmaðurinn hefur nú verið endurræstur sem hluti af Avengers genginu en Venom fær sinn eigin hliðarveruleika og persóna hans er því ekki tengd þeim heimi. Í stuttu máli er hann fljótandi form úr geimnum sem þarf lifandi hýsil til að samlagast og þegar blandan er góð er hann ansi öflugur vargur.

„Venom“ skartar stórstirninu Tom Hardy í hlutverki blaðamannsins Eddie Brock. Blaðasnápurinn sérhæfir sig í að fjalla um óréttlæti heimsins og stórlaxana sem græða á tá og fingri á blóði og svita (og dauða) almúgans. Þorsti hans í réttlæti kemur honum í vandræði þegar hann hyggst afhjúpa frumkvöðulinn Carlton Drake (Riz Ahmed) með þeim afleiðingum að Brock missir starfið og kærustuna (Michelle Williams) og verður svo til allslaus í kjölfarið. Leiðir Brock og Drake liggja þó aftur saman þegar fljótandi form úr geimnum samlagast blaðasnápnum og sem hin ófrýnilega ófreskja „Venom“ kemst Brock að ískyggilegu ráðabruggi Drake sem felur í sér mikla eyðileggingu fyrir heiminn.

„Venom“ kemur talsvert á óvart. Myndin tekur sinn tíma í að kynna Brock og aðrar helstu persónurnar áður en lagt er í hasarinn. Það er mikill húmor yfir þessu öllu saman og sennilega var það góð leið til að kynna til sögunnar andhetju þar sem Venom er engan veginn öðlingur í dulargervi og persónan sem hann samlagast er enginn dýrlingur heldur þó siðferðislegi áttavitinn sé mátulega stilltur. Atriðin þegar Venom gerir vart við sig og Brock fer að upplifa skringilega hluti (og heyra skrítna rödd í sífellu) eru skemmtilega leyst og létti tónninn er ferskur andblær í miðju ofurhetjuofforsi sem tekur sig helst til of hátíðlega á stundum.

Seinni hlutinn inniheldur fyrsta flokks hasar og frábærar sjónbrellur en myndin missir sig aðeins í brellublætinu þó svo hún rumpi lokabardaganum af á skikkanlegri tíma en nýlegar ofurhetjumyndir sem teygja lopann hreint svakalega á lokasprettinum.

Vel er valið í öll hlutverk en Tom Hardy er sérlega skemmtilegur í frekar krefjandi (og áreynslumiklu) hlutverki. Gæðaleikkonan Williams fer létt með hlutverk fyrrverandi hans Brock og manni finnst eins og hér sé löglærður að sinna sjoppudjobbi þar sem hún hefur margsannað gæði sín í erfiðum rullum en persóna hennar hér er frekar óspennandi.

„Venom“ er mögulega nýtt upphaf á áhugaverðum hliðarheim af ofurhetjum þar sem gráa svæðið er kannski ögn dekkra og persónunarnar aðeins litríkari fyrir vikið. Hún gengur ekki eins langt í villtum húmor og „Deadpool“ myndirnar en finnur nógu mikið sérkenni til að aðskilja sig vel frá Marvel ofurhetjunum. Atriði sem kemur eftir að myndinni er lokið gefur fögur fyrirheit um hvað koma skal og maður bíður bara nokk spenntur eftir meiru frá eitruðu andhetjunni.