Eldfjallið gýs á morgun

Eldfjall ( Volvano ), fyrsta mynd leikstjórans Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd, verður frumsýnd á morgun á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Í tilkynningu frá framleiðendum segir að sölufyrirtækið Trust Nordisk hafi tryggt sér alþjóðlegt söluumboð á Eldfjalli, en sama fyrirtæki er með söluumboð fyrir nýjustu mynd Lars von Trier, Melancholia, sem keppir um Gullpálmann.

Eldfjall keppir í flokknum Directors Fortnight og jafnframt um hin virtu Camera d´Or verðlaun í Cannes.

Í tilkynningunni segir að mikill áhugi sé fyrir Eldfjalli meðal sölu og dreifingaraðila.

Rúnar heldur utan í dag, fimmtudag, ásamt fylgdarliði en með í för verða stjörnur myndarinnar þau Theodór Júlíusson og Margrét Helga Jóhannssdóttir. Helstu leikarar í aukahlutverkum, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Benedikt Erlingsson og tónskáld myndarinnar Kjartan Sveinsson verða einnig viðstödd frumsýninguna í Cannes.

Eldfjall ver tekin upp á Íslandi haustið 2010 og er íslensk/dönsk samframleiðsla
Zik Zak Kvikmynda og Fine & Mellow í Danmerku. Myndin var styrkt af
Kvikmyndamiðstöð Íslands, New Danish Screen, Nordisk Film & TV Fond með
stuðningi frá Iðnaðarráðuneytinu. Myndin er framleidd af Þóri Snæ Sigurjónssyni,
Skúla Fr. Malmquist og Egil Dennerline.