Er í Rogue One en sést ekki

Í kvikmyndinni Rogue One: A Star Wars Story, sem frumsýnd var um síðustu helgi, koma ýmsir frægir leikarar við sögu. Einn þeirra nýtur þó ákveðinnar sérstöðu þar sem hann hvorki sést í myndinni, né er hægt að heyra rödd hans.  Um er að ræða My Best Friend´s Wedding leikarann Dermot Mulroney.

dermot-mulroney

Mulroney er fjölhæfur maður og býr ásamt leikhæfileikum yfir miklum tónlistargáfum. Hann hefur leikið á selló frá unga aldri, en sellóleikur hans ómar einmitt í þessari vinsælu mynd.

Segja má að aðkoma leikarans að myndinni sé áhugaverð þar sem hann er best þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttum eins og Shameless og New Girl, og fyrrnefndri My Best Friend’s Wedding kvikmynd og hrollvekjunni Insidious: Chapter 3.

Mulroney segir í samtali við bandaríska dagblaðið The Los Angeles Times að hann sé stoltur af því að fá tækifæri til að spila tónlistina í myndinni með sinfóníuhljómsveit.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikarinn, sem er 53 ára,  spilar kvikmyndatónlist því hann lék einnig tónlistina í myndunum Mission: Impossible — Ghost Protocol og Star Trek Into Darkness.

Það er eitt sem öll tónlistin sem Mulroney hefur leikið inn á kvikmyndir á þó sameiginlegt, en  það er maður að nafni Michael Giacchino, en hann hefur samið tónlistina fyrir allar myndirnar þrjár.

Vinskapur tókst með listamönnunum tveimur árið 2005 þegar þeir unnu saman að gamanmyndinni The Family Stone, en þar lék Mulroney aðalhlutverk og Giacchino samdi tónlistina.

Nú er bara að sperra eyrun næst þegar horft er á Rogue One: A Star Wars Story!