Fyrsta stiklan úr Antebellum er komin út, en kvikmyndin er frá þeim sömu og framleiddu Jordan Peele spennutryllana/hrollvekjurnar Get Out og Us.
Með aðalhlutverk í Antebellum fer Welcome to Marwen leikkonan Janelle Monáe.
Í stiklunni, sem er um einnar mínútu löng, er margt sem minnir á Get Out og Us í yfirbragðinu, en samt er maður litlu nær um söguþráðinn, en honum vilja framleiðendur halda að mestu leyndum. Því er aðallega um að ræða laustengdar stuttar svipmyndir, þar sem blandast saman atriði sem gerast í tveimur heimum – nútímanum og hinsvegar á tíma þrælastríðsins í Bandaríkjunum.
Opinber söguþráður myndarinnar er þessi: „Rithöfundurinn Veronica Henley, sem Monáe leikur, festist í hrollvekjandi veruleika, milli tveggja heima, og þarf að leysa ógnvekjandi ráðgátu, áður en það er um seinan.“
Handrit og leikstjórn Antebellum er í höndum Gerard Bush og Christopher Renz. Aðrir helstu leikarar eru Marque Richardson II, Eric Lang, Jack Huston, Kiersey Clemons, Tongayi Chirisa, Gabourey Sidibe og Jena Malone.
Von er á spennutryllinum í bíó í Bandaríkjunum 24. apríl á næsta ári, 2020.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: