Krúttlegt en lífshættulegt – Fyrsta stikla úr Life

Fyrsta stiklan úr geimtryllinum Life er komin út, en þar fylgjumst við með því þegar geimfarar í leiðangri til plánetunnar Mars uppgötva í fyrsta sinn líf utan Jarðar. Lífveran er ósköp krúttleg og sæt í fyrstu, en er svo sannarlega ekki öll þar sem hún er séð.

life-jake

Life er ein af stóru myndum ársins 2017 frá Sony kvikmyndaframleiðandanum og er leikstýrt af Safe House leikstjóranum Daniel Espinosa. Meðal helstu leikara eru Ryan Reynolds, sem lék einmitt undir stjórn Espinosa í Safe House, og Everest leikarinn Jake Gyllenhaal.

Í myndinni fylgjumst við með sex geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni sem uppgötva líf á Mars, en lífveran, eins og fyrr sagði, er allt annað en vinveitt.

Aðrir leikarar eru m.a. Rebecca Ferguson, Olga Dihovichnaya, Ariyon Bakare og Hiroyuki Sanada.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: