Frelsun keisaraynjunnar í Kína

Ástríkur og Steinríkur: Miðríkið, sem kom í bíó nú um helgina, er sú fimmta í röðinni í leiknu kvikmyndaseríunni um þá félaga. Áður hafa komið út Ástríkur og Steinríkur: Gegn Sesari (1999), Ástríkur og Kleópatra (2002), Ástríkur á Ólympíuleikunum (2008) og Ástríkur og Steinríkur: Guð blessi Bretland (2012).

Fræknir kappar sem búa yfir krafti galdradrykksins.

Einkadóttir kínverska keisarans Han Xuandi flýr frá illum prinsi og leitar skjóls í Gallíu, hjá hinum hugrökkum hermönnum Ástríki og Steinríki....

Það er árið 50 fyrir Krist og keisaraynjunni af Kína er haldið fanginni af hinum svikula prinsi Deng Tsin Qin sem hefur framið valdarán. Með hjálp föníska kaupmannsins Finalthesis og síns trausta lífvarðar Mai Wei, tekst prinsessunni Sass-Yi, einkadóttur keisarynjunnar, að flýja til Gaulverjabæjar. Hún biðlar til hinna hugdjörfu hreystimenna Ástríks og Steinríks að hjálpa sér að frelsa keisarynjuna.

Neita ekki ævintýrum

Þau sem þekkja til sagnanna um Gaulverjana hraustu vita að þeir dáðadrengir neita aldrei ævintýrum enda búa þeir yfir ofurmannlegum styrk þökk sé seiðkarlinum í Gaulverjabæ. Upp hefst epísk hættuför til þess að frelsa móður prinsessunnar og bjarga Miðríkinu úr krumlum Deng Tsin Qin. Á sama tíma leggur hinn valdaþyrsti Júlíus Sesar af stað með sínu öfluga herliði í átt að Miðríkinu.

Vildi verða knapi

Guillaume Canet, sem leikur Ástrík og leikstýrir myndinni, ólst upp í sveit nálægt París. Hann átti sér draum á unga aldri um að verða knapi og keppa í hestaíþróttum en sá draumur fjaraði út eftir slæma byltu. En í kjölfarið hófst fjölbreyttur og farsæll leiklistar- og leikstjórnarferill Guillaume.

Fótboltastjarnan sænska Zlatan Ibrahimovic leikur Antivirus.

Fróðleikur

-Tökur áttu að hefjast í Kína 2020 en var frestað vegna faraldursins. Ári síðar var ákveðið að taka myndina upp í Frakklandi vegna pólitískra ástæðna.

-Þetta er fyrsta kvikmyndin um þá kauða Ástrík og Steinrík sem ekki er byggð á neinni af myndasögunum eftir þá Albert Uderzo og René Goscinny. Einnig sú fyrsta þar sem Steinríkur er ekki leikinn af franska leikaranum Gérard Depardieu.

-Íslensk talsetning: Sigurður Sigurjónsson, Ylfa Marín Haraldsdóttir, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Andrea Ösp Karlsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Kolbrún María Másdóttir, Árni Beinteinn, Selma Lóa Björnsdóttir og Villi Netó.

Aðalhlutverk: Guillaume Canet Gilles Lellouche og Vincent Cassel

Handrit: Philippe Mechelen & Julien Hervé

Leikstjórn: Guillaume Canet

Umfjöllunin birtist fyrst í Kvikmyndum mánaðarins.