Frumsýning: Parker

Sambíóin frumsýna spennumyndina Parker á föstudaginn næsta, 1. febrúar.

Eftir vel heppnað rán er Parker svikinn af félögum sínum og skilinn eftir til að deyja. En Parker lifir af og þegar hann nær heilsu kemst bara eitt að: Hefnd.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Það eru þau Jason Statham og Jennifer Lopez sem fara með aðalhlutverkin í þessari spennu- og fléttumynd leikstjórans Taylors Hackford sem er gerð eftir einni af þekktustu bókum rithöfundarins Donalds E. Westlake.

Söguþráður myndarinnar er þessi: Parker er atvinnuþjófur sem hefur það sem reglu í sínum aðgerðum að stela aðeins frá þeim sem hafa efni á að vera rændir og meiða aldrei neinn sem á það ekki skilið.

Í upphafi myndarinnar hefur Parker gengið til liðs við þjófagengi í því skyni að fremja hið fullkomna rán. Það tekst en í ljós kemur að foringi gengisins, hinn svikuli Melander, ætlar sér ekki að láta Parker fá sinn hlut í ránsfengnum heldur ganga af honum dauðum. Svo fer að Parker er skilinn eftir í vegkanti þar sem Melander og hans menn telja hann dauðan.

En Parker lifir af við illan leik og á meðan hann jafnar sig af sárum sínum byrjar hann að skipuleggja hefnd sína gagnvart Melander og hinum fyrrverandi félögum sínum. Til að sú hefnd megi heppnast sem best ákveður hann að stofna til kynna við konu að nafni Leslie, en hún veit meira um Melander en flestir aðrir…

Aðalhlutverk: Jason Statham, Jennifer Lopez, Nick Nolte, Michael Chiklis, Wendell Pierce, Sala Baker og Bobby Cannavale

Leikstjórn: Taylor Hackford

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmoli til gamans: 

• Donald E. Westlake, höfundur sögunnar Flashfire sem Parker er gerð eftir, skrifaði einnig sögurnar sem myndirnar Payback, The Stepfather og The Hot Rock voru gerðar eftir.