Glæpir og hasar í fyrstu stiklu úr Vargi

Fyrsta stikla úr nýrri íslenskri kvikmynd, Vargur, er komin út, en framleiðendur eru RVK Studios og Baltasar Kormákur. Leikstjóri er Börkur Sigþórsson. Frumsýningardagur er 4. maí nk.  Miðað við það sem sést í stiklunni er hér á ferð spennutryllir úr samtímanum með úrvalsliði leikara,  og við sögu kemur ofbeldi, eiturlyf og kynlíf.

Vargur er fyrsta kvikmynd Barkar í fullri lengd, en hann hefur áður getið sér gott orð fyrir verðlaunastuttmyndir sínar og sem einn af leikstjórum Ófærðar.

Með aðalhlutverk fara Gísli Örn Garðarsson og Baltasar Breki Samper, en þeir leika bræður sem báðir eru í bráðum fjárhagsvanda, af ólíkum ástæðum þó.

Annar þarf að koma sér undan handrukkurum vegna fíkniefnaskuldar, en hinn hefur dregið sér fé á vinnustað til að fjármagna dýran lífsstíl. Saman ákveða þeir að grípa til ólöglegra aðgerða til að koma sér á réttan kjöl.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: