Handrit að Prometheus 2 í vinnslu

Prometheus, mynd Ridley Scott, fékk misjafnar viðtökur þegar hún var frumsýnd síðasta sumar. Myndin fékk 74% á Rotten Tomatoes vefsíðunni, og þénaði 400 milljónir Bandaríkjadala í miðasölu um heim allan.

Háværustu gagnrýnendur myndarinnar gagnrýndu hana fyrir ýmsar gloppur í söguþræðinum og gagnrýndu leikstjórann sömuleiðis fyrir að skilja of margar spurningar eftir ósvaraðar.

Endir myndarinnar var á þann veg að augljóslega var boðið upp á mögulegt framhald, þó ekkert hafi verið sagt um það hingað til hvort slíkt standi til.

Noomi Rapace, aðalstjarna myndarinnar, hefur nú rofið þögnina þar um, en á kynningarfundi fyrir nýjustu mynd sína Dead Man Down sagði hún að vinna við handritið væri hafin: „Þeir eru byrjaðir á handritinu,“ sagði Rapace. „Ég hitti Ridley í London fyrir tveimur vikum síðan. Það yrði frábært að fá að vinna með honum aftur og ég veit að hann vill gera aðra mynd. Það eina sem við þurfum núna er að hafa söguna nógu góða. Ég vona að það takist,“ sagði Rapace við blaðamenn.

Í lok myndarinnar Prometheus voru persóna Rapace, Shaw, og vélmennið David, sem leikið var af Michael Fassbender, komin um borð í geimskip og ætluðu að leita að Verkfræðingunum ( the Engineers ) til að komast að því af hverju þeir hafi ætlað að eyða mannkyninu.

Það er klárlega spurning sem flestum sem sáu fyrri myndina hlýtur að langa til að fá svar við …