Hanks sem pabbi Gosa

Disney afþreyingarrisinn ætlar sér í náinni framtíð að búa til leikna mynd upp úr ævintýrinu um spýtustrákinn Gosa. Vefsíðan Collider hefur nú heimildir fyrir því að enginn annar en Tom Hanks eigi nú í viðræðum um að leika föður Gosa, Geppetto.

Geppetto skar eins og flestir ættu að vita, út spýtustrák úr tré, sem lifnaði við þegar bláklædd álfamær birtist með sinn töfrasprota. Var Gosa lofað að ef hann myndi haga sér vel, vera hugrakkur og hjálpsamur, þá yrði hann alvöru strákur á endanum.

Það er satt að segja ekki erfitt að sjá Tom Hanks fyrir sér í hlutverkinu, með grátt hár og grátt yfirvararskegg. Sagt er að leikstjóri verði Paul King, sem leikstýrði Paddington kvikmyndunum tveimur, og handritshöfundar verði þau Chris Weitz ( Cinderella ) og Simon Farnaby ( Paddington ).

Verkefnið er ekki eina Gosakvikmyndin sem er í vinnslu, þar sem Shape of Water leikstjórinn Guillermo del Toro er með aðra slíka mynd í vinnslu, svokallaða “stop-motion” mynd, fyrir Netflix. Talið er að undirtónn þeirrar myndar verði mun myrkari en þeirrar sem Disney er að hugsa um.

Hanks sést næst í Greyhound í vor, en það er Seinni heimsstyrjaldar drama um skipalest 37 skipa, undir stjórn skipstjórans Krause, sem Hanks leikur. Skipalestin er hundelt af kafbátum Nasista. Þar á eftir mun Hanks leika í Toy Story 4, sem frumsýnd verður 21. júní nk., og næsta haust kemur kvikmyndin You are My Friend, þar sem hann leikur barnatímastjórann Mr. Rogers.